Á Suðurgötu 14, sem margir þekkja sem gömlu skattstofuna, er ungmennahús Hafnfirðinga staðsett og kallast Hamarinn.
Margrét Gauja Magnúsdóttir segir í samtali við Fjarðarfréttir að í Hamrinum sé allt ungt fólk á aldrinum 16-25 ára velkomið og hefur tilgangur ungmennahússins þessa Covid-tíma snúist um að þjónusta námsmenn í fjarnámi.
„Hamarinn hefur aldrei lokað og unnið eftir bestu getu að því að þjónusta námsmenn sem hafa ekki getað eða viljað lært heima við. Þungamiðja starfsins þessa vorönnina verður svipuð, þ.e. Hamarinn er opin alla virka daga frá 9-23 og er ungu fólki velkomið að koma og læra, hanga, spila, spjalla, í raun það sem það vill,“ segir Margrét Gauja.
Að sögn Margrétar Gauju koma ungmenni í húsið til að læra þegar aðstæðurnar heima eru ekki hagstæðar af einhverjum aðstæðum og segir hún ungmennahúsið mjög mikilvægt fyrir ungmenni ekki síst á þessum farsóttartímum.
Aukið aðgengi að ráðgjöfum Bergsins, ráðgjöfum frá Samtökunum ´78 og sálfræðingum
Það verður tvennt nýtt á döfinni í vor, tónleikaröðin Streymi núna í janúar og aukið aðgengi að ráðgjöfum Bergsins, ráðgjöfum frá Samtökunum ´78 og sálfræðingum á vegum Hamarsins sem Margrét Gauja segir mjög mikilvæg nýjung.
Streymi – tónleikaröð Hamarsins og Músik og mótor
Veglegur styrkur fékkst frá Ferða- og menningarmálanefnd Hafnarfjarðar í haust fyrir tónleikaröðinni Streymi þar sem ungir hafnfirskir tónlistarmenn og konur koma fram og verður tónleikunum streymt á netið.
Fyrstu tónleikarnir verða föstudaginn 15. janúar kl. 20, næstu 22. janúar og síðustu 29. janúar.
Segir Margrét Gauja það tilvalið fyrir alla Hafnfirðinga að eiga gæðastund heimavið, poppa og horfa á ungt hafnfirskt tónlistarfólk framtíðarinnar að verki. „Hver veit, kannski eftir 10 ára getið þið montað ykkur af því að hafa séð þau á sviði þegar þau voru rétt að byrja,“ segir Margrét Gauja með bros á vör.
Liggur þér eitthvað á hjarta?
Í Hamrinum getur þú hitt ráðgjafa frá Berginu, Samtökunum 78, og sálfræðinga á vegum Hamarsins.
Hvernig fæ ég tíma? Komdu í Hamarinn, hringdu í Möggu Gauju í síma 664 5551, sendu tölvupóst á mgm@hafnarfjordur.is, eða sendu DM á Hamarinn í gegnum Facebook eða Instagram og við höfum sambandi við þig eins fljótt og við getum. Einnig getur þú bókað viðtal við ráðgjafa frá Berginu á www.bergid.is – ráðgjafi frá þeim verður í Hamrinum ALLA mánudaga í janúar og febrúar.
Hvað kostar? Ekkert
Hvar hitti ég ráðgjafan/sálfræðingin? Þú getur hitt hann í Hamrinum, með aðstoð Kara Connect í gegnum tölvuna þína eða í símann, á sálfræðistofunni á Bæjarhrauni í Hafnarfirði, eða hjá Berginu Headspace á Suðurgötu í Reykjavík. Í raun hvernig sem er og hvar sem er, eins og þér hentar, og fullum trúnaði er heitið.
Starfsfólk Hamarsins hvetur ungmenni sem þurfa aðstoð til að koma og spjalla. „Saman finnum við út úr þessu“.