fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirHafnarfjarðarbær tekur 806 milljónir kr. að láni

Hafnarfjarðarbær tekur 806 milljónir kr. að láni

Enn ein lántaka til að fjármagna Skarðshlíðarskóla sem átti að byggja fyrir eigið fé

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum sl. fimmtudag að leggja til við bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar að heimila að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga til byggingar Skarðshlíðarskóla að fjárhæð samtals 806 milljónir kr. sem tryggt verði með veði í tekjum sveitarfélagsins.

Lánin eru tvö, annað að fjárhæð 396.046.108.- kr. til 35 ára, með lokagjalddaga 2055 og hitt að fjárhæð 500.000.000 kr. til 2034 í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem lá fyrir fundinum en ekki var gert aðgengilegt almenningi í fundargerð.

Þegar bygging Skarðshlíðarskóla var tilkynnt að hann yrði byggður fyrir eigið fé sveitarfélagsins og ekki var þá reiknað með neinum lántökum.

Mátti t.d. sjá í fundargerð bæjarstjórnar frá 25. apríl 2018 þar sem Rósa Guðbjartsdóttir bókaði um fjármál bæjarins f.h. Sjálfstæðisflokks og fl.: „Framkvæmdir við nýjan grunn-, leik- og tónlistarskóla í Skarðshlíð, nýtt húsnæði til æfinga og kennslu á Ásvöllum og nýtt hjúkrunarheimili við Sólvang, eru öll dæmi um verkefni sem fjármögnuð eru fyrir eigið fé en ekki með lántöku“.

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum 27. maí sl. að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga til fjármögnunar Skarðshlíðarskóla að fjárhæð 1.000.000.000 kr. til 14 ára, með lokagjalddaga 5. apríl 2034 með veði í tekjum sveitarfélagsins.

Í júlí 2019 var samþykkt 950 milljón kr. lántaka sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sögðu fyrst og fremst vera til að mæta fjárfestingu og framkvæmdum við Skarðshlíðarskóla. Bygging hans hófs árið 2017 og var kostnaðaráætlun upp á 4 milljarða kr. Var þá sagt að lóðasala í hverfinu myndi standa undir kostnaði við byggingu skólans.

Bæjarstjórn afgreiðir lántökuna á fundi sínum á miðvikudag.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2