fbpx
Fimmtudagur, júlí 18, 2024
HeimFréttirHvað hefur menntamálaráðherra að fela? Áskorun um svör! - UPPFÆRT

Hvað hefur menntamálaráðherra að fela? Áskorun um svör! – UPPFÆRT

Hefur ekki svarað í 4 mánuði!

Þann 13. október sendi ritstjóri Fjarðarfrétta fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem óskað var skýringa á því að skv. frétt á vef ráðuneytisins 9. október 2020 kom fram að fjölmiðill innan höfuðborgarsvæðisins hafi fengið styrk úr byggðaáætlun.

Í auglýsingu frá júlí sl. um styrki til fjölmiðla stóð m.a.:

„Einnig geta þeir sem starfrækja staðbundna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins sótt um styrk úr byggðaáætlun. Til ráðstöfunar úr byggðaáætlun eru 5 millj. kr. og ræðst styrkfjárhæð til hvers umsækjanda af fjölda gildra umsókna.“

Úr frétt ráðuneytisins 9. október:

Mennta- og menningarmálaráðherra ákvað hinn 1. september sl. að veita staðbundnum fjölmiðlum utan höfuðborgarsvæðisins styrk úr byggðaáætlun. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að veita árlega 5 milljónum kr. til að efla staðbundna fjölmiðla, samtals 25 milljónum kr. á fimm árum.

„Staðbundnir fjölmiðlar tryggja aðgengi almennings að upplýsingum um samfélagsmál í sínu nærumhverfi og styðja þannig við lýðræðisþátttöku og menningarstarf með mikilvægum hætti,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Auglýst var eftir styrkjum í júlí og bárust alls 11 umsóknir. Allir umsækjendur eru skráðir fjölmiðlar hjá fjölmiðlanefnd og hafa þeir staðið að reglubundinni útgáfu á þessu ári og umfjöllunarefni og fréttir eru að jafnaði frá afmörkuðu landsvæði. Allar umsóknir voru því teknar til greina.

Eftirtaldir fjölmiðlar hlutu styrk að upphæð 455.000 kr. hver:

Ásprent Stíll (Akureyri)
Björt útgáfa (Hafnarfirði)
Eyjasýn (Vestmannaeyjum)
N4 (Akureyri)
Prentmet Oddi (Reykjavík (Selfossi)
Skessuhorn (Akranesi)
Steinprent (Ólafsvík)
Tunnan prentþjónusta (Siglufirði)
Úr vör (Patreksfirði)
Útgáfufélag Austurlands (Reyðarfirði)
Víkurfréttir (Reykjanesbæ)

(Staðir í sviga er viðbót Fjarðarfrétta. Reyndar kemur ekki fram hver fjölmiðillinn er, heldur aðeins fjölmiðlaveitan.)

Var fyrirspurnin ítrekuð 30. október og ráðuneytið einnig upplýst um kaup Hafnarfjarðarkaupstaðar á ritstjórnarlegu efni í Hafnfirðingi, sem Björt útgáfa gefur út. Barst svar frá Kristrúnu Heiðu Hauksdóttur, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins þar sem hún þakkar fyrir ítrekunina og ábendingu um fréttina. „Við sendum svör við fyrirspurn þinni hið fyrsta.“

„Margar hliðar sem þarfnast nánari skoðunar“ – en engin svör

18. nóvember var fyrirspurnin aftur ítrekuð og 20. nóvember barst svar frá Kristrúnu Heiðu upplýsingafulltrúa, þar sem beðist var forláts á þeim töfum sem orðið hafa á svari við fyrirspurninni. Í svarinu segir: „Enn er unnið að þessu máli og komið hefur í ljós að á því eru margar hliðar sem þarfnast nánari skoðunar. Þú mátt eiga von á ítarlegri skýringum frá okkur og vonast ég til að þær berist þér hið fyrsta.“

Þrátt fyrir ítrekanir hafa engin svör enn borist frá ráðuneytinu.

Fyrirgreiðslupólitík?

Það vekur athygli að Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem situr fyrir hönd Framsóknar, skrifaði um styrkveitinguna að staðbundnir fjölmiðlar tryggja aðgengi almennings að upplýsingum um samfélagsmál í sínu nærumhverfi og styðja þannig við lýðræðisþátttöku og menningarstarf með mikilvægum hætti. Hins vegar þykir flokksfélaga hennar, formanni bæjarráðs í Hafnarfirði, Ágústi Bjarna Garðarssyni, ekkert óeðlilegt að Hafnarfjarðarbær greiði háar upphæðir í hverjum mánuði fyrir greinarskrif í blaðinu Hafnfirðingi, sem Björt útgáfa, sem fékk styrkinn úr byggðaáætlun.

Að ekki sé hægt að svara svona einfaldri fyrirspurn, hlýtur að vekja upp spurningar hvort þarna sé verið að beita gamaldags fyrirgreiðslupólitík, þvert á eigin reglur.

Áskorun um svör

Er hér með skorað á Lilju Alfreðsdóttur að útskýra hvers vegna fjölmiðli innan höfuðborgarsvæðisins, sem er undir verndarvæng Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í Hafnarfirði, er úthlutað styrk úr byggðaáætlun – þrátt fyrir skýrar reglur um að einungis fjölmiðlar utan höfuðborgarsvæðisins geti fengið slíka styrki.

UPPFÆRT 26.2.2021

Borist hefur svar frá upplýsingafulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins í dag kl. 13.05:

„Styrkur úr byggðaáætlun hefur verið afturkallaður vegna mistaka af hálfu ráðuneytisins við vinnslu umsókna um styrki til staðbundinna fjölmiðla. Síðastliðið haust var úthlutað styrk úr byggðaáætlun til fjölmiðils innan höfuðborgarsvæðisins.

Ákvörðun um úthlutun grundvallaðist á misvísandi upplýsingum sem veittar voru af einstaka umsækjendum, þar sem merkt var við að um væri að ræða staðbundinn fjölmiðil utan höfuðborgarsvæðisins.

Ákveðið var að afturkalla styrkinn þar sem umsækjandi gæti ekki haft réttmætar væntingar til úthlutunar styrksins í ljósi þeirra skilyrða sem komu fram í auglýsingu.“

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2