Úrslitakvöld í spurningakeppni grunnskólanna, Veistu svarið, var haldið í Bæjarbíói í kvöld. Þar kepptu lið Áslandsskóla og Víðistaðaskóla.
Mikil stemmning var í salnum, stuðningslið skólanna létu heyra í sér og liðin gerðu keppnina einstaklega áhugaverða því keppni var jöfn og spennandi.
Spyrill og spurningahöfundur var Árni Stefán Guðjónsson. Fyrirkomulag keppninnar var þannig að fyrst komu hraðaspurningar í 90 sekúndur, þá var vísbendingaspurning sem gaf 1-3 stig, þá 10 bjölluspurningar sem gáfu eitt stig hver, þá vísbendingaspurning og síðan hljóðdæmi sem gaf eitt stig og að lokum þríþraut sem gaf 1-3 stig og gátu bæði liðin halað inn stigum.
Lið Víðistaðaskóla stóð sig betur í hraðaspurningunum og fékk 16 stig á meðan lið Áslandsskóla fékk 14. Náðu þau að svara jafnmörgum spurning. Kannski hafði æfingakeppni liðs Víðistaðaskóla áhrif, en fram kom að liðið keppti fyrr í dag við lið kennara skólans og bar sigur úr býtum!
Lið Víðistaðaskóla náði að auka aðeins forskotið en þá var komið að liði Áslandsskóla að svara, jafnvel áður en spurningar voru bornar upp og fljótlega var staðan jöfn.
Liðin svöruðu ótrúlegustu spurningum en þekktu þó ekki hvað fyrsta James Bond myndin hét og þekktu ekki Jennifer Aniston með grímu.
Lið Áslandsskóla komst í 19-18 en lið Víðistaðaskóla jafnaði og fyrir þríþrautina var staðan jöfn 20-20.
Í þríþrautinni voru leikin upphafslög þekktra kvikmynda og gat hvort lið náð mest þremur stigum og hefði þá þurft bráðabana til að ná fram úrslitum.
Bæði liðin höfðu fyrstu lögin rétt sem voru úr Harry Potter og Mission: Impossible en það var aðeins lið Víðistaðaskóla sem vissi að síðasta lagið var úr myndinn Back to the future og það réð baggamuninn og skólinn hampaði sigrinum.
Mikil fagnaðarlæti brutust út og að sama skapi voru keppendur og stuðningsmenn úr Áslandsskóla vonsviknir en geta þó verið hreyknir af glæstum árangri.
Keppendur fyrir Víðistaðaskóla voru: Ari Dignus Maríuson, Emilía Nótt Davíðsdóttir og Fannar Berg Skúlason. Liðstjóri var Kristmundur Guðmundsson.
Keppendur fyrir Áslandsskóla voru: Þorsteinn Ómar Ágústsson, Ívan Atli Ívansson og Páll Steinar Guðnason. Liðstjóri var Þórdís Lilja Þórsdóttir.
Stella Björg Kristinsdóttir, fagstjóri frístundastarfs hjá Hafnarfjarðarbæ segir að það sé gaman að segja frá því að keppnin sé búin að vera óvenjuleg í ár. „Í fyrra var ekki hægt að halda áfram og klára keppnina vegna Covid en í ár þá ákváðum við að Covid-væðakeppnina og fóru 9 liða úrslit og 4 liða úrslit í gegnum rafheima á Teams, þar sem Veistu svarið var streymt í allar félagsmiðstöðvar og klapplið komu saman til að fylgjast með á skjánum en ekki á staðnum.“
Í kvöld voru liðin í fyrsta sinn með stuðningslið með sér í salnum en ekki í öðru herbergi.