fbpx
Fimmtudagur, júlí 18, 2024
HeimFréttirSex ungir tilvonandi íbúar tóku fyrstu skóflustunguna

Sex ungir tilvonandi íbúar tóku fyrstu skóflustunguna

Í gær tóku sex væntanlegir íbúar fyrstu skóflustunguna að húsnæði sem Þroskahjálp mun reisa fyrir Vinabæ að Stuðlaskarði 2.

Fyrir tveimur árum undirritaði Hafnarfjarðarbær samning við sex fatlaða einstaklinga um byggingu og rekstur íbúðakjarna að Stuðlaskarði 2. Samningurinn á sér engin fordæmi því einstaklingarnir munu með viðeigandi aðstoð sjálfir sjá um skipulag og rekstur íbúðakjarnans.

Fjölmennt var og greinilega gleðidagur.

Þroskahjálp mun byggja húsið og leigja einstaklingunum en Hafnarfjarðarbær mun sjá um að greiða Vinabæ það fé sem þarf til rekstursins.

Húsið verður raðhús á einni hæð. Þar verða 6 íbúðir og starfsmannaaðstaða. Hver íbúð er 67 fermetrar og er starfsmannaaðstaðan 20 fermetrar. Samskonar hús var byggt í Sandgerði árið 2018. Íbúðirnar verða afhentar í lok árs 2021.

Svona mun húsið líta út.

Markmiðið er að byggja húsnæði sem gerir fötluðu fólki kleift að búa á eigin heimili í samræmi við þarfir og óskir eftir því sem kostur er, tryggja þeim jafnrétti til búsetu og skapa skilyrði til eðlilegs lífs og þátttöku í samfélaginu.

Átta ár eru síðan hugmyndin kom fyrst fram og var þetta því mikinn gleðidagur fyrir þessa sex einstaklinga.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum 9. janúar 2019 að ganga til samninga við Rekstrarfélagið Vinabæ, en félagið verður í eigu íbúanna sem er nýmæli.

Haft var á orði að ekki þyrfti vélar, svo dugleg voru þau við moksturinn.

Einstaklingarnir búa í dag í foreldrahúsum og stunda bæði vinnu og íþróttir auk þess að hafa öll lokið námi sínu í framhaldsskóla.

Rekstrarfélag Vinabæjar er hlutafélag í eigu íbúanna sem hefur þann tilgang að sjá um þjónustu við þá. Félagið er rekið samkvæmt lögum nr. 38/2018 og reglugerðum sem ná yfir málefni fatlaðs fólks svo sem reglugerð nr. 370/2016 um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk og nr. 1054/2010 um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu.

Húsið verður reist af Húsbyggingarsjóði Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Indriði Björnsson flytur ávarp og væntanlegir íbúar bíða spenntir eftir að geta tekið fyrstu skóflustunguna.

Hver vill ekki frekar búa með vini sínum en einhverjum ókunnugum?

„Hver vill ekki frekar búa með vini sinum en einhverjum ókunnugum?“  Þetta var spurning sem kviknaði hjá okkur nokkrum foreldrum ungra einstaklinga með Downs-heilkenni þegar við ræddum saman um framtíðarbúsetu þeirra,“ sagði Indriði Björnsson, einn foreldra væntanlegu íbúanna í ávarpi áður en fyrstu skóflustungurnar voru teknar. „Af hverju geta þau ekki bara búið saman?“ 

„Þau þekkjast vel, eru öll vinir, hafa öll búið saman í skammtímavist, eru á svipuðum stað í lífinu, mörg með svipuð áhugamál og eiga ekki endilega samleið með öðrum einstaklingum með fötlun. Félagslega eru þau oft einangruð, því foreldrarnir hafa ekki alltaf tíma til að skutla þeim til vina sinna. Væri ekki gott að geta bankað upp á í næstu íbúð ef þig vantar félagsskap? Ríflega átta ár eru síðan þessi hugmynd kom fyrst fram og er því um mikinn gleðidag að ræða fyrir þessa sex einstaklinga og okkur foreldrana.

Vinir munu búa saman í raðhúsinu.

Samningur þessi á sér engin fordæmi því Vinabær verður í eigu íbúanna og munu því einstaklingarnir sjálfir fá að taka þátt í og hafa áhrif á stefnu og hvaða áherslur verða í þjónustunni.

Við foreldrar sjáum fyrir okkur að með sameiginlegri búsetu gætu þessir vinir orðið góður stuðningur við hvort annað. Þau hafa öll sína styrkleika og veikleika, og það er okkar von að sem hópur nái þau að verða enn sjálfstæðari í framtíðinni og þar af leiðandi þyrftu þau þá á minni þjónustu að halda.

Mig langar til þess að koma á framfæri sérstöku þakklæti til Landssamtakanna Þroskahjálpar, Ás styrktarfélags og Hafnafjarðarbæjar fyrir ómetanlegan stuðning og mikla framsýni,“ sagði Indriði Björnsson að lokum.

Önnur bygging við Öldugötu

Landssamtökin Þroskahjálp og Hafnarfjarðarbær skrifuðu í desember 2015 undir samkomulag vegna lóðar að Öldugötu 41 í Hafnarfirði. Þar byggir húsbyggingarsjóður Þroskahjálpar leiguíbúðir ætlaðar sex fötluðum einstaklingum. Áætlað var upphaflega að húsið yrði tilbúið til notkunar 2018 en það hefur tafist og eru húsin ekki tilbúin enn.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2