Það er skondið að sjá DV slá því upp að það séu hatrammar deilur milli ritstjóra í Hafnarfirði og þá milli ritstjóra Fjarðarfrétta og ritstjóra Hafnfirðings.
Ekki veit ég í hvaða heimi blaðamaður DV er og stórefast ég um að hann hafi kynnt sér málið. Að minnsta kosti hafði hann ekki áhuga á að svara tölvupósti.
Það getur vel verið að hinn ágæti ritstjóri Hafnfirðings telji að verið sé að deila á sig en því miður verð ég að upplýsa að hún hefur ekki haft og fær eflaust ekki neitt aðalhlutverk í fréttaflutningi Fjarðarfrétta.
Hún kýs hins vegar að dansa skítugan dans í sínum skrifum sem DV lepur upp og er dansinn heldur taktlaus og óspennandi. Ekki síst þegar hún lýsir vanþekkingu sinni á hringdansi á balli þar sem hún kýs líka að þakka fyrir dansinn með hreinum lygum um boð um að deila auglýsingamarkaðinum.
Skattfé misnotað til að styrkja eitt blað
Hún hefur óhjákvæmilega blandast inn í gagnrýni mína á meirihlutann í bæjarstjórn Hafnarfjarðar sem hefur kosið að deila mjög misjafnt auglýsingakaupum sínum til hafnfirskra miðla. Sökin liggur ekki hjá henni og því hefur ekki verið haldið fram hér.
Skattfé notað til að kaupa greinar sem henta meirihlutanum
Ég hef líka gagnrýnt að Hafnarfjarðarbær kaupi greinar í Hafnfirðingi sem lætur það líta út eins og hverjar aðrar fréttir í blaðinu ef undan er skilið er lítil merking um samstarf. Það varð uppi fótur og fit í Reykjanesbæ þegar þáverandi bæjarstjóri varð uppvís að því að greiða bæjarmiðli þar ákveðna upphæð á mánuði til að skrifa jákvætt um skólastarf í bænum. Svona kaup á skriftum mætti maður helst búast við í einræðisríkjum en meirihlutanum finnst þetta eðlilegur gjörningur.
Skattfé notað til að gefa út eigið jólablað
Ég gagnrýndi líka þegar Hafnarfjarðarbær kaus að gefa út sérstakt jólablað með ærnum tilkostnaði, sem ekki einu sinni var gert í samstarfi við Markaðsstofu Hafnarfjarðar. Til hvers að vera gefa út blað í Hafnarfirði þegar bæjarfélaginu finnst sjálfsagt að nota skattfé borgaranna til að gefa út sitt eigið í beinni samkeppni. Ritstjóri Hafnfirðings blandaðist í þá útgáfu með beinum hætti og sleppti m.a. eigin útgáfu á meðan á meðan nýjasta jólablaðið var gefið út..
Löng málsmeðferð ráðherra
Það dylst engum að rekstrargrundvöllur bæjarblaða er erfiður og tek ég þar heils hugar undir með ritstjóra Hafnfirðings.
Það var fagnaðarefni þegar ráðherra bauð upp á styrki til fjölmiðla síðasta sumar. Þeir hrukku hins vegar skammt enda aðeins ein greiðsla nema til þeirra sem áttu rétt á að fá styrk úr byggðaáætlun en það voru aðeins þeir fjölmiðlar sem störfuðu utan höfuðborgarsvæðisins. Það mátti seta stórt spurningarmerki við þá styrki enda er rekstrarumhverfi bæjarblaða á höfuðborgarsvæðinu eflaust mun verri en blaðanna úti á landi.
Þegar loks var upplýst hverjir hefðu hlotið styrk úr byggðaáætlun kom í ljós að útgefandi Hafnfirðings var einn þeirra. Undirritaður sendi strax fyrirspurn til ráðuneytis og óskaði skýringa, ekki síst til að vita hvort eitthvað hafi misskilist og fleiri ættu rétt á slíkum styrki.
Með hraða snigilsins tóku starfsmenn ráðuneytis á málinu og engin efnisleg svör bárust. Engin skýring á því hvers vegna málið tæki svona langan tíma og þegar undirrituðum brást þolinmæðin var skrifað opið bréf til ráðherra í fréttastíl.
Það virtist bera ávöxt því eftir þá birtingu kom loks svar, um að útgefandi Hafnfirðings hafi veitt misvísandi upplýsinga og það hafi verið mistök ráðuneytisins að veita fjölmiðlinum styrk. Sjálfur hefur útgefandi Hafnfirðings upplýst að hafa hakað óvart í reit þar sem óskað var eftir styrk úr byggðaáætlun. Öllum getur orðið á mistök en miðað við kröfurnar sem gerðar voru til umsóknar veldur hæg og óvönduð afgreiðsla ráðuneytisins mér miklum vonbrigðum.
Það mál er því úr sögunni og ráðuneytið hefði getað afgreitt þetta mál á fljótlegan og einfaldan hátt og enginn þurft að fara í fýlu við sendiboðann.
Nei, málið snérist ekki um ritstjóra Hafnfirðings og því lá það aldrei fyrir að spyrja hann um eitt eða neitt. Sá ritstjóri var einfaldlega ekki með í þeim dansi.
Áður hefur verið gerð hér greinargóð skil á kaupum Hafnarfjarðarbæjar á auglýsingum hjá bæjarmiðlinum og engin ástæða að endurtaka það hér frekar en að svara óhróðri og lúalegum ásökunum sem ritstjórinn hefur í frammi. En ritstjórinn kýs að fara ekki í neinar ritdeilur og er það hið besta mál og það væri óskandi ef grundvöllur væri fyrir tvo fréttamiðla í Hafnarfirði í framtíðinni.
Fjarðarfréttir hafa lagt áherslu á lifandi fréttir og að vekja umræðu um það sem skiptir bæjarbúa máli.
Lifi Hafnarfjörður!
Guðni Gíslason, ritstjóri og útgefandi Fjarðarfrétta.