Kjartan Jónsson, sóknarprestur í Ástjarnarsókn, hefur gefið út bók sem fjallar um uppruna flóttamanna og hvers vegna þeir leggja á sig langt ferðalag út í óvissuna. Titil hennar er Flóttamenn, þjónusta kirkna og kristilegra félaga á Vesturlöndum í þeirra þágu.
Helstu alþjóðasáttmálum, lögum og reglugerðum sem fjalla um þennan málaflokk eru gerð skil. Þá er gerð grein fyrir því hvað Biblían segir um flóttamenn og gestkomandi og þátt flóttafólks og flytjenda í útbreiðslu kristninnar. Einn kafli fjallar um fordóma og ótta fólks við útlendinga og flóttafólk, menningarmun og spurt er hvort flóttamenn séu ógn við kristnina. Annar kafli fjallar um hvað ýmsar kirkjur og kristileg samtök á Vesturlöndum gera fyrir flóttamenn, þar á meðal hér á landi. Bókin endar á guðfræðiþönkum um þennan málaflokk.
Bókin er tæpar 200 blaðsíður með myndum, kortum og heimildaskrá. Salt ehf., útgáfufélag gefur bókina út.
Að sögn Kjartans er bókin afrakstur námsleyfis sem hann fékk í fyrravetur. Segist hann hafa fengið góð viðbrögð við henni.
Kjartan er vel kunnugur málaflokknum úr Ástjarnarkirkju þar sem útlendingum hefur verið meðal annars boðið upp á íslenskunámskeið. Eins var Kjartan lengi kristniboðsprestur og er doktor í mannfræði.
Í ítarlegri umsögn Hreins S. Hákonarsonar um bókina á vef kirkjunnar segir í lokaorðum: „Bókin Flóttamenn – Þjónusta kirkna og kristilegra félaga á Vesturlöndum í þeirra þágu, er holl lesning hverjum vakandi manni, karli eða konu, trúuðum sem ekki trúuðum. Hún er skýr og heiðarleg, hlý og yfirveguð. Þau sem lesa hana fá góðan grunn til að ræða málin af skynsemi og kærleika. Bók af þessu er mjög svo heppileg til að lesa í leshring úti í söfnuðum landsins og það gæti verið skref í áttina til þess að sem flestir söfnuðir landsins tækju þessi mál upp á sína arma.“