Framkvæmdir eru hafnar við að fylla að gamla stálþilinu við Norðurbakka en ekki er langt síðan ráðist var í nokkuð umfangsmiklar viðgerðir á því en þá var jarðvegi bætt á botninn framan við þilið.
Nú hefur verið ákveðið að setja grjótvörn framan við bakkann á sama hátt og er á nær allri strandlengjunni. Pramminn Selur 1 siglir með grófan jarðveg frá Óseyrarbryggju og að Norðurbakkanum þar sem honum er sleppt upp við bakkann.

Þegar hæfilega hefur verið sett að þessum jarðvegi verður stórgrýti hlaðið upp eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.


Lengi hefur verið beðið eftir frágangi á Norðurbakkanum þar sem er mikil umferð gangandi, hlaupandi og hjólandi fólks. Er mikið af pollum á bryggjunni og oft hættulegt vegna hálku auk þess sem svæðið hefur ekki verið mjög vistlegt.

Verktakafyrirtækið Hagtak sér um fyllingar og grjótvörn og verður mest allt efni flutti á pramma sjóleiðina frá Óseyrarbryggju að Norðurbakka
Í júni verður hafist handa við að ganga frá yfirborði með göngustígum, lýsingu og gróðri.