Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hafnaði í gær að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 en áður höfðu Reykjanesbær, Hafnarfjörður og Grindavík samþykkt umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi með atkvæðum allra bæjarfulltrúa sveitarfélagana þriggja.
Valkosur C sem Landsnet vill fara gerir þó ráð fyrir að línan liggi meðfram núverandi línu í gegnum sveitarfélagið Voga en ekki á ósnortnu hrauni eins og línan fer um í Hafnarfirði.
„Afgreiðsla sveitarfélagsins eru vonbrigði m.a. í ljósi umræðunnar um náttúruvá og afhendingaröryggi raforku á svæðinu. Staðan sem við stöndum frammi fyrir er mjög erfið og ekki ljóst með áframhaldið,” segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets, en Landsnet hefur í mörg ár talað fyrir mikilvægi þess að bæta afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum.
„Þessi niðurstaða Sveitarfélagsins Voga er vonbrigði, ekki bara fyrir okkur heldur einnig fyrir hin sveitarfélögin á línuleiðinni sem nú þegar hafa veitt leyfi. Ef ákvörðunin stendur óbreytt er í uppnámi ein mikilvægasta framkvæmdin í flutningskerfi raforku á svæði sem stjórnvöld hafa sett í forgang. Afgreiðsla framkvæmdaleyfis með höfnun eins og í þessu tilviki á sér ekki fordæmi og ekki ljóst hver séu næstu skref en vinna við að meta það er nú þegar hafin. Verkefnið er stopp á meðan og Suðurnesin búa áfram við óbreytt ástand. Í ljósi þess að jarðhræringar og eldgos gætu staðið yfir í lengri tíma er það ekki ásættanlegt fyrir íbúa og fyrirtæki á svæðinu sem er miður,” segir Guðmundur Ingi.
Suðurnesjalína 2 hefur lengi verið í undirbúningi og stefnt var að því að hefja framkvæmdir árið 2020.
Umsóknin um framkvæmdaleyfið byggði á samþykktri kerfisáætlun og ítarlegum undirbúningi þar sem lagt var mat á umhverfisáhrif ólíkra valkosta og hagsmunaaðilum tryggð aðkoma í gegnum vandað samráðsferli.
Loftlínuvalkosturinn sem sótt var um framkvæmdaleyfi fyrir tryggir best afhendingaröryggi raforku, af þeim kostum sem voru skoðaðir. Rannsóknir við undirbúning verkefnisins sýndu jafnframt að svæðið er útsett fyrir jarðskjálftum og eldgosum, sem gerir það að verkum að jarðstrengskostur er ekki góður á þessu landsvæði.
Sá jarðstrengsvalkostur sem Sveitarfélagið Vogar leggur til felur í sér umtalsverðan viðbótarkostnað og minna öryggi. Þessi valkostur fellur heldur ekki að stefnu stjórnvalda um lagningu raflína í flutningskerfinu og er ekki samræmi við raforkulög. Þar af leiðandi getur Landsnet ekki lagt hann til.