fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirSækir um 6,4 milljón kr. styrk til að auka vellíðan eldri borgara

Sækir um 6,4 milljón kr. styrk til að auka vellíðan eldri borgara

Hafnarfjarðarbær hefur óskað eftir fjárhagslegum stuðningi til að auka og efla félagsstarf og stuðningsþjónustu við eldri borgara umfram hefðbundið félagsstarf og stuðningsþjónustu með hvatningu, fylgd í félagsstarf og heimahreyfingu með aðstoð starfsmanns.

Enn fremur er sótt um styrk til að auka þekkingu og kenna eldri borgurum notkun snjalltækja.

Fram kemur í umsókn að sótt sé um styrk vegna stuðnings við að rjúfa félagslega einangrun, viðhalda færni og auka vellíðan eldri borgara á tímum Covid-19.

Sótt er um á grundvelli fjármagns vegna sérstakra viðbótarverkefna í félagsstarfi en ekki kemur fram í fundargerð fjölskylduráðs hvert sótt er um. Í svari við fyrirspurn Fjarðarfrétta upplýsir Rannveig Einarsdóttir sviðsstjóri að sótt sé um til félagsmálaráðuneytisins.

Félags- og barnamálaráðherra hvatti, í pósti 11. mars sl., sveitarfélög til að efla félagsstarf fullorðinna á árinu 2021 með það að markmiði að rjúfa félagslega einangrun sem orðið hefur vegna COVID-19. „Eldri borgarar hafa víða þurft að þola skerta samveru og félagslega einangrun vegna samkomutakmarkana og sjálfsskipaðrar sóttkvíar. Af þeim sökum er sérstaklega mikilvægt að leggja aukna áherslu á frístundaiðkun, geðrækt, hreyfingu, tæknilæsi og forvarnir með það að markmiðið að auka lífsgæði og heilbrigði fólks, fyrirbyggja og draga úr félagslegri einangrun.“

Samþykkt hefur verið að styðja við þau sveitarfélög sem, vegna COVID-19, hyggjast auka við starfsemi og þjónustu í félagsstarfi fullorðinna 2021 umfram hefðbundið starf.

Gafst sveitarfélögum kostur á að sækja um fjárframlag vegna viðbótarverkefna í félagsstarfi fullorðinna árið 2021.  Alls var samþykkt að veita 80 milljónum króna til þessa verkefnis á landsvísu og gat hvert sveitarfélag sótt um 1.700 kr. fyrir hvern íbúa í sveitarfélaginu sem er 67 ára og eldri

Markhópurinn sem Hafnarfjarðarbær sækir um fyrir er hópur eldri borgara sem eru félagslega einangraðir og hreyfa sig lítið og ekki hafa alist upp við rafræna þjónustu og eiga erfitt með að tileinka sér nýja tækni.

Kennsla á snjalltæki

Sótt er um 2.360.000 kr. styrk til að geta boðið upp á kennslu á snjalltæki.

„Margir eldri borgarar eru mjög óöruggir í notkun snjalltækja. Samskipti við opinberar stofnanir td. umsóknir og fræðsla, eins og heilsuvera og fleiri vefsíður. Einnig fara samskipti við banka alltaf fram á netinu, sem veldur eldri borgurum áhyggjum og kvíða. Kunnátta á snjalltæki auðveldar einnig eldri borgurum að vera í samskiptum við aðstandendur nær og fjær og gefur þeim tækifæri t.d. að versla á netinu, leita sér fræðslu og tilboða.“

Heimaþjálfun

Sótt um 1.990.000 kr. styrk til að geta boðið upp á heimahreyfingu.

„Margir veikburða eldri borgarar fara lítið út af sínum heimilum, eru bæði félagslega einangraðir og hreyfa sig lítið. Boðið væri upp á aðstoð starfsmanns við hreyfingu, t.d. stólaleikfimi á heimili einstaklingsins.“

Hvatning og fylgd í félagsstarf í Hraunseli

Sótt um 2.000.000 kr. styrk til að veita eldri borgurum sem ekki eru að sækja félagsstarf eldri borgara í Hraunseli hvatningu og fylgd í félagsstarfið.

 

Í Félagi eldri borgara í Hafnarfirði eru um 1.850 manns en almennt geta menn gerst félagar þegar þeir verða 60 ára. Skv. upplýsingum frá félaginu eru tæplega 90 félagar 90 ára eða eldri. Íbúar í Hafnarfirði 60 ára og eldri voru 1. janúar sl. 5.389 svo í félaginu eru um 34% þeirra.

Alls voru 3.222 íbúar í Hafnarfirði 67 ára og eldri 1. janúar 2020 en fjölgaði um 2,4% og voru 3.300 1. janúar 2021.

Eru samstarfsaðilarnir í umsókninni sagðir: Félagsstarf eldri borgara Hraunseli, Félag eldri borgara Hafnarfirði, ráðgjafi í málefnum eldri borgara, starfsmenn stuðningsþjónustu og Tölvudeild Hafnarfjarðar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2