Áslandsskóli varð í þriðja sæti í fimmta riðli í Skólahreysti með 40 stig og mun keppa í úrslitakeppninni í beinni útsendingu á RÚV 29. maí nk. kl. 20.
Sigraði lið skólans í einni grein, upphýfingum, þar sem náðust 44 upphífingar. Skólinn varð í öðru sæti í armbeygjum með 35 armbeygjur, 4. sæti í hreystigreip með 3:38 mín, 5. sæti í hraðaþraut á 2:40 mín og í 5. sæti í dýfum, þar sem náðust 30 dýfur.
Laugalækjarskóli og Grunnskólinn á Hellu urðu í 1. og 2. sæti í riðlinum.
Venjulega eru 10 undanriðlar og svæðisskiptir en vegna Covid19 voru þeir aðeins 7 og ekki svæðisskiptir. Tólf skólar komast í úrslit, öll sigurliðin 7 og síðan þeir fimm skólar sem náðu bestum árangri þeirra sem eftir voru. Þar á meðal var Áslandsskóli.
Víðistaðaskóli var einnig nálægt því að komast áfram úr sjötta riðli, fékk 48 stig og sigraði í einni grein, í upphífingum þar sem náðust 52 upphýfingar.
Keppnisgreinar
- Upphífingum (strákar)
- Armbeygjum (stelpur)
- Dýfum (strákar)
- Hreystigreip (stelpur)
- Hraðaþraut (strákar og stelpur)
Keppendur, sem eru úr 9. og 10. bekk grunnskólana, skipta á milli sín keppnisgreinum. Annar strákurinn spreytir sig á upphífingum og dýfum meðan hinn keppir í hraðaþrautinni. Hjá stelpunum er hið sama uppi á teningnum: Önnur stúlkan keppir í armbeygjum og hreystigreip, en hin tekur þátt í hraðaþrautinni. Tveir skólar keppa samtímis í hverri þraut fyrir utan hreystigreip, en þar takast á fimm til átta skólar í einu.
Tólf skólar keppa svo í úrslitum Skólahreysti.