fbpx
Mánudagur, nóvember 25, 2024
target="_blank"
HeimFréttirPólitíkStöðnun og áframhaldandi fækkun íbúa í Hafnarfirði

Stöðnun og áframhaldandi fækkun íbúa í Hafnarfirði

Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi skrifar.

Ekkert lát er á fækkun íbúa í Hafnarfirði, en á fyrstu fimm mánuðum ársins fækkaði þeim um 200. Það er þvert á allar áætlanir sem gera ráð fyrir fjölgun íbúa á bilinu 335-445 á ári. Á sama tíma fjölgaði íbúum í Garðabæ og Kópavogi á bilinu 300-400 manns. Á síðasta ári fækkaði íbúum Hafnarfjarðar í fyrsta skiptið eftir samfelldan vöxt bæjarins í 80 ár. Og fólki heldur áfram að fækka í bænum. Þetta er uppskeran af stjórn meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í Hafnarfirði þar sem glundroði og hringlandi hefur einkennt störfin.

Í talningu á vegum Samtaka iðnaðarins í febrúar og byrjun mars kemur fram eins og svo oft áður að fæstar íbúðir eru í byggingu í Hafnarfirði miðað við nágrannasveitarfélögin – aðeins 160 íbúðir. Þetta gerist þegar góðæri og mikil uppbygging á sér stað í nágrannasveitarfélögum okkar og íbúum fjölgar. Þetta lendir verst á unga fólkinu sem leitar sér að húsnæði en kemur að lokuðum dyrum hjá meirihlutanum í Hafnarfirði og neyðist til þess að leita í önnur bæjarfélög. Samfylkingin í Hafnarfirði hefur margoft varað við þessari öfugþróun og bent á aðrar leiðir.

Fólksfækkun íbúa hefur mjög alvarleg áhrif fyrir uppbyggingu bæjarins og styrkingu innviða auk minnkandi tekna fyrir bæjarsjóð. Þar reynir meirihlutinn að bjarga óráðssíunni með því að selja dýrmæta innviði bæjarins eins og salan á hlut HS Veitum er dæmi um. Hvað verður selt næst? Vatnsveitan, höfnin eða reynt að einkavæða skólanna eins og Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn gerðu forðum, en mistókst hrapallega með tilheyrandi kostnaði sem bærinn er ennþá að borga af.

Hér komin upp grafalvarleg staða, sem bæjarstjóri meirihlutans kýs að gera lítið úr og segir aðeins sé um tímabundna fækkun að ræða sem kemur fljótt til baka. Þetta heitir að stinga höfðinu í sandinn og til marks um þá stöðnun og hringlanda sem einkennir stjórn bæjarins.

Nú þarf að taka höndum saman með fólkinu í bænum. Hverfa frá stöðnun og setja uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í forgang. Hvergi eru sóknarfærin fleiri og betri en í Hafnarfirði. Þau þarf að nýta svo bærinn haldi aftur áfram að vaxa.

Stefán Már Gunnlaugsson,
varabæjarfulltrúi og fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingarráði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2