Lóð undir nýja byggð sérbýlishúsa við Víðistaðatúnið hefur nú verið auglýst til úthlutunar. Staðsetningin er eintök, við norðvestur jaðar Víðistaðatúns sem er vinsælt og fjölskylduvænt svæði með fjölbreyttum möguleikum til útivistar, eins og segir í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.
Á lóðinni er heimilt að byggja þrjú einbýlishús á einni hæð og tvö tveggja hæða raðhús, annað með þremur íbúðum og hitt með fjórum. Samtals tíu íbúðir.
Lóðirnar hafa verið mjög umdeildar enda var tekinn hluti af hverfisvernduðu Víðistaðatúni til að koma lóðunum fyrir en með þeim á að þétta byggð.
Ekki var tekið tillit til mótmæla Skátafélagsins Hraunbúa sem þarna er með sitt skátaheimili en byggt er mjög nálægt skátaheimilinu. Þá er aðkeyrsla að húsunum um bílastæðið framan við skátaheimilið og beint fyrir framan aðalinnganginn sem mun hafa veruleg áhrif á starfsemi í skátaheimilinu.
Lágmarksverð lóðarinnar er 98.000.670 kr. Lágmarksverð pr. íbúð í raðhúsi er 8.881.965.- kr. m.v. 155 m² og í einbýlishúsi kr. 11.942.305.- m.v. 185 m².
Tilboð í lóð ásamt öllum fylgigögnum þurfa að berast fyrir kl. 11 föstudaginn 6. ágúst nk. Sama dag á sama tíma verða tilboðin opnuð í bæjarráðssal í Ráðhúsi Hafnarfjarðar.