Bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, samþykkti á fundi sínum 1. júlí sl. að hafin yrði vinna við breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar á afmörkun þess svæðis sem tekur til Áslands 4 og Áslands 5.
Skipulags- og byggingarráð hefur nú samþykkt framlagða tillögu að breyttu aðalskipulagi og að áframhaldandi meðferð málsins verði í samræmi við 30. gr. skipulagslaga. Málinu var vísað til bæjarstjórnar til staðfestingar.
Breytingin nær til hluta svæðisins ÍB11, Ásland 4, 5 og miðsvæði.
Í greinargerð Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013-2025 segir á bls. 34: Ásland „Áfangar 4 – 5 ÍB11 munu verða í suðurhlíðum Ásfjallsins og teygja sig til móts við íbúðarbyggðina á Völlum. Þetta svæði er í miklum halla og einkennist af melum í miklum landhalla til suðurs og suðausturs.”
Á þessum svæðum eru áætlaðar um 580 íbúðareiningar þar af 200 í einbýlishúsum, 140 í rað- og parhúsum og 240 í fjölbýlishúsum.
Svæðið stækkar en íbúðareiningum fækkar
Breytingin gerir ráð fyrir fækkun á áætluðum fjölda íbúðareininga, þar sem gert er ráð fyrir 460 íbúðareiningum í sérbýli og smærri fjölbýli. Er þetta fækkun um 120 einingar frá núgildandi skipulagi. Þá er einnig gert ráð fyrir leikskólalóð á svæðinu.
Breytingin felst í því að Ásland 4 stækkar úr 30 ha í 42,1 ha og tengist í eitt samfellt hverfi. Heildarstærð ÍB11 verður þannig 50 ha.
Í greinargerð Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013-2025 er íbúðarsvæðið Ásland 4 og Ásland 5 skilgreint sem ÍB11 í töflu 2: Yfirlit yfir íbúðarsvæði í Hafnarfirði bls. 38.
Þá er verið að leiðrétta uppgefna stærð ÍB11 í töflu í greinargerð skipulagsins þar sem ÍB11 er sagt 30 ha, en sú stærð mun aðeins eiga við um Ásland 4, norðan Ásvallabrautar, en til ÍB11 telst einnig Ásland 5, sunnan Ásvallabrautar, sem er 8,1 ha og er því heildarstærð ÍB11 38 ha.
Sérbýlum fjölgað
Í samtali við Fjarðarfréttir segir Þormóður Sveinsson skipulagsstjóri hjá Hafnarfjarðarbæ að ástæða fækkunar íbúðareininga sé að verið sé að fjölga sérbýlum, parhúsum og raðhúsum á kostnað fjölbýlishúsa og því fækki fjöldi íbúðareininga. Segir hann að eftirspurn hafi verið eftir minni einingum en á svæðinu er í vinnu sem nú er í gangi, sé gert ráð fyrir fjögurra íbúða húsum sem stærstu fjölbýlishúsunum.