Aron Logi Hrannarsson og Rósa Kristín Hafsteinsdóttir náðu glæsilegum árangri á Opna breska meistaramótinu sem haldið var í Blackpool á dögunum.
Þau náðu 5. sæti í flokki undir 21 árs í latin dönsum sem verður að teljast mjög góður árangur en Aron og Rósa eru einungis 16 og 17 ára gömul og eiga því nokkur ár eftir í þessum flokki.
Þá kepptu þau einnig í flokki áhugamanna „rising star” og enduðu þar í 8. sæti og er það ekki síðri árangur þar sem að í þeim flokki keppa allir aldurshópar.
Aron er Hafnfirðingur og stundar nám í Flensborg en Rósa er frá Akranesi.