Wiola Ujazdowska, annar tveggja sýningarstjóra haustsýningar Hafnarborgar, Samfélags skynjandi vera, mun á laugardaginn kl. 14, leiða gesti um sýninguna þar sem hún ræðir heildarhugmynd sýningarinnar og verk listamannanna. Spjallið verður á ensku.
Með því að líta á tengingu okkar við heiminn sem samfélag skynjandi vera getum við nálgast viðfangsefnið á nýjan hátt, hvort sem við eigum við samband manns og náttúru, manns og menningar eða samband mannsins við sjálfan sig. Hugtakið skynjandi vera leysir okkur því undan viðjum gildishlaðinna orða, svo við getum ímyndað okkur hvað það er að vera manneskja í stærra samhengi. Meginhugmyndin er að spyrja spurninga um sagn- og félagsfræðilega merkingu hins mannlega.
Þátttakendur í sýningunni eru Agata Mickiewicz, Agnieszka Sosnowska, Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir, angela rawlings, Anna Wojtyńska, Dans Afríka Iceland, Freyja Eilíf, Gígja Jónsdóttir, Hildur Ása Henrýsdóttir, Hubert Gromny, Kathy Clark, Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir, Melanie Ubaldo, Michelle Sáenz Burrola, Nermine El Ansari, Pétur Magnússon, Rúnar Örn Jóhönnu Marinósson, Styrmir Örn Guðmundsson, Ufuoma Overo-Tarimo, Wiola Ujazdowska.
Í kjölfar sýningarstjóraspjallsins – sem og alla laugardaga yfir sýningartímann – verður listamaðurinn Rúnar Örn Jóhönnu Marinósson svo með gjörning í tengslum við verk sitt Sjúga & spýta lifa og starfa.
Aðgangur er ókeypis.