Þvílíkar móttökur og engin smá skemmtun. Takk fyrir allt, Suðvesturkjördæmi. Það er rétt sem sagt hefur verið; saman getum við gert meira og betur. Nú erum við á lokametrunum í þessari stuttu en snörpu kosningabaráttu. Í mínum huga hefur hún heilt yfir verið skemmtileg og málefnaleg. Þegar litið er yfir farinn veg getum við í Framsókn verið stolt af okkur og verkum okkar. Við leggjum því spilin óhrædd á borð ykkar kjósenda.
Hvað sem gerist þann 25. september næstkomandi, er ég reynslunni ríkari. Við höfum ferðast um allt kjördæmið á undanförnum vikum og dögum, haldið fjölda viðburða og reynt eftir fremsta megni að hitta ykkur sem flest. Takk fyrir að gefa ykkur tíma til að hitta mig og okkur; opna fyrirtæki ykkar, heimili og jafnvel stoppa á götum úti til að eiga við okkur samtal. Ég er fullur auðmýktar, þakklátur fyrir reynslusögurnar, sögur af draumum ykkar og upplifunum af því sem betur má fara í okkar samfélagi. Þetta ferli hefur styrkt mig og gert betri.
Ég hef nú starfað á vettvangi stjórnmálanna frá árinu 2014. Alltaf er ég að læra eitthvað nýtt og þroskast um leið. Ég hef óbilandi trú á íslensku samfélagi og tel að nú sé tími til að fjárfesta enn frekar í fólki; fjárfesta í millistétt landsins. Skapa ný störf, atvinnu og tækifæri. Umfram allt heyri ég meiri þörf fyrir umburðarlyndi í okkar góða samfélagi. Ég á sjálfur trausta fjölskyldu; konu og tvo yndislega stráka. Annar þeirra er með CP og þarf aðstoð við hluti sem okkur flestum þykir svo sjálfsagðir. Á degi hverjum verða á vegi okkar ótal hindranir sem við þurfum í sameiningu að komast yfir. Það gerum við. Hann langar að geta gengið: „pabbi, má ég labba með þér?“ og við löbbum saman fram og til baka tímunum saman. Eðlilega, enda farinn að horfa upp á vini og félaga á leikskólanum sínum vera eins sjálfbjarga og við verðum á þessum aldri. Við erum þakklát fyrir hann og allt baklandið sem hann á hjá okkur. Sjálfur hefur maður upplifað ýmislegt og ýmsar tilfinningar. Það hefur hins vegar enginn kennt okkur meira en hann Teitur okkar. Við erum öll einstök og ég vil trúa því að það sé pláss fyrir okkur öll. Hann er dásamlegur og meira til; eins og við öll.
Þetta er verkefnið, að búa öllum samfélag til að blómstra í og nýta eigin styrk og hæfileika. Ég hef alla tíð í mínu starfi haft það að leiðarljósi að vera einlægur og sannur í því sem ég tek mér fyrir hendur. Með samvinnu komumst við lengra. Við skulum ekki leita til þeirra sem boða byltingar, sundrung og löngu úrelta stefnu. Við skulum kjósa framfarir, skynsemi og samvinnu. Við skulum kjósa velferð og aukin lífsgæði. Ég óska eftir þínum stuðningi til góðra verka í þágu okkar allra.
Ágúst Bjarni Garðarsson,
formaður bæjarráðs og situr í 2. sæti á lista Framsóknar í suðvesturkjördæmi.