fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirPólitíkNý ríkisstjórn - niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu

Ný ríkisstjórn – niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar:

Mér þykir vænt um stjórnmál. Ekki síst vegna samtalsins við alls konar einstakl­inga þvert yfir samfélagið um margvíslegar óskir og ólíkar þarfir. Hin mikilvæga teng­ing við raunveruleika fólks.

Og raunveruleikinn er sá að langflestir hafa á lífsleiðinni orð­ið fyrir áföllum, sumir í æsku en aðrir síðar. Sum áföll eru fyrirsjáanleg en önnur gera ekki boð á undan sér. Áhrifa­rík­ustu samtölin í tengslum við starf mitt eru við foreldra og aðstand­endur þeirra sem hafa leiðst út í áhættuhegðun, þung­lyndi og kvíða vegna áfallaröskunar.

Samtölin hafa snúist um hvernig við getum gert betur og skapað umhverfi sem tekur utan um þennan dýrmæta hóp.

Ein leið er hreinlega að fjárfesta veru­lega í líðan þjóðar og líta ekki á það sem mjúku málin, heldur þau grjóthörðu. Að andleg líðan sé jafngild þeirri líkamlegu. Tryggja að allir hafi aðgengi að hjálp. Og þegar einstaklingur er loksins reiðubúinn til að vinna í sínum málum séu það ekki endalausir biðlistar og himinhár kostnaður sem taki á móti honum heldur opinn faðmur og stuðningur.

Og það var nákvæmlega þetta sem vakti fyrir þingflokki Viðreisnar þegar hann lagði fram mál ásamt þingmönnum úr öllum flokkum um að hefja niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu og annarri klínískri samtalsmeðferð. Frumvarpið var sam­þykkt einróma, vilji löggjafans var skýr og ég fylltist bjartsýni á að við værum að fjarlægjast pólitískar átakalínur. Þegar hins vegar kom að því að tryggja fjármagn reyndist ekki vilji hjá ríkis­stjórnarflokkunum að fylgja málinu eftir. Eins sárt og það er. Við reyndum að höfða til félagslegrar ábyrgðar­kenndar VG og Framsóknar og grjót­harðra talnatilfinninga Sjálf­­stæðismanna, en allt kom fyrir ekki. Jafnvel þótt að aukið aðgengi og forvirkar aðgerðir muni spara ríkissjóði verulega fjármuni til lengri tíma og styrkja félagslegar stoðir samfélagsins.

Skortur á aðgengi að geðheil­brigðis­þjónustu er lífshættulegur. Það segir tölfræðin okkur og reynslan. En þannig þarf það ekki að vera. Þjóðin á betra skilið en ríkisstjórn sem þorði ekki pólitískt að hafna góðu frumvarpi í þingsal. En ætlar sér svo ekki að klára verkefnið. Enda ekki „þeirra mál“. Í nýrri ríkisstjórn með Viðreisn innanborðs verður þetta mál klárað. Því get ég lofað. Í því felast almanna­hagsmunir.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
formaður Viðreisnar

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2