fbpx
Þriðjudagur, desember 17, 2024
target="_blank"
HeimFréttirTrjám plantað beint í fornleifar í Óttarsstaðaseli

Trjám plantað beint í fornleifar í Óttarsstaðaseli

Fornminjar, sem bæði eru forngripir og fornleifar virðast ekki fá þá athygli og verndun sem þær eiga skilið. Mjög fáar fornleifar í Hafnarfirði og nágrenni eru t.d. merktar og lítið virðist vera fylgst með hvort þeim sé raskað á einhvern hátt.

Þó nú sé verið að skrá fornminjar í landi Hafnarfjarðar þá eru aðeins örfáar fornleifar skráðar á minjavefsjá sem aðgengileg er almenningi á https://www.map.is/minjastofnun. Hins vegar hefur Björn Pétursson minjavörður Hafnarfjarðarbæjar bent á að búið er að senda þessar skráningar til minjastofnunar auk þess sem búið er að skrá þær og gera aðgengilegar á kortavef bæjarins en þar eru þær reyndar nokkuð faldar undir Skipulag.

Ýmislegt verður til þess að fornminjar raskist og getur þar margt komið til, öldrun og veðrun, ágangur fólks og dýra, gróður auk þess sem hugsunarleysi við verklegar framkvæmdir geta raskað menningarminjum.

Slæmt er þegar fólk plantar trjám í eða of nálægt fornminjum en slíkur gróður getur eyðilagt dýrmætar fornleifar en nýlega hafa sést ummerki um að trjám sé plantað beint í Óttarsstaðasel, sem er merkileg menningarheild sem mikilvægt er að varðveita.

Óttarsstaðasel í landi Hafnarfjarðar

Ákvæði um fornminjar

Í 3 gr. Laga um menningarminjar nr. 80/2012 segir um „Fornminjar“:

„Fornminjar“ samkvæmt lögum þessum eru annars vegar forngripir og hins vegar fornleifar.

„Forngripir“ eru lausamunir 100 ára og eldri sem menn hafa notað eða mannaverk eru á og fundist hafa í eða á jörðu eða jökli, í vatni eða sjó. Skip og bátar frá því fyrir 1950 teljast til forngripa. Til forngripa teljast einnig leifar af líkömum manna og hræjum dýra sem finnast í fornleifum, svo sem fornum haugum, dysjum og leiðum.

„Fornleifar“ teljast hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri, svo sem:

  1. búsetulandslag, skrúðgarðar og kirkjugarðar, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi leifum mannvirkja og öskuhauga, húsaleifar hvers kyns, svo sem leifar kirkna, bænhúsa, klaustra, þingstaða og búða, leifar af verbúðum, naustum og verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum,
  2. vinnustaðir þar sem aflað var fanga, svo sem leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, kolagröfum og rauðablæstri,
  3. tún- og akurgerði, leifar rétta, áveitumannvirki og aðrar ræktunarminjar, svo og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita,
  4. vegir og götur, leifar af stíflum, leifar af brúm og öðrum samgöngumannvirkjum, vöð, varir, leifar hafnarmannvirkja og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra,
  5. virki og skansar og leifar af öðrum varnarmannvirkjum,
  6. þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð,
  7. áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum og minningarmörk í kirkjugörðum,
  8. haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið,
  9. skipsflök eða hlutar þeirra.

Fornminjar njóta friðunar nema annað sé ákveðið af Minjastofnun Íslands

  1. gr. Byggingararfur.

Til byggingararfs samkvæmt lögum þessum teljast hús og önnur mannvirki og einstakir hlutar þeirra sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, svo sem:

  1. stök hús eða hlutar þeirra og húsasamstæður, hvort sem er til íbúðar eða menningar- og atvinnustarfsemi í þéttbýli eða dreifbýli, húsaþyrpingar og götumyndir,
  2. kirkjur og bænhús, ásamt tilheyrandi mannvirkjum, svo sem klukkuturnum, garðhleðslum og sáluhliðum, klaustur, samkomuhús, skólahús og nánasta umhverfi þeirra, aðrar opinberar byggingar, íþróttamannvirki og sundlaugar,
  3. brýr og hvers konar samgöngumannvirki, virkjanir, stíflur, dælustöðvar og önnur orkumannvirki, hafnarmannvirki, vind- og vatnsmyllur, vitar, slippir, hjallar, manngerðir hellar og réttir.
Vatnsbólið við Óttarsstaðasel. Eitt af fáum vatnsbólum í hraununum í upplandi Hafnarfjarðar.

Skylda um verndun fornleifa

Í 21. gr. um „Verndun fornleifa“ segir m.a.:

Fornleifum, sbr. 3. mgr. 3. gr., jafnt þeim sem eru friðlýstar sem þjóðminjar og þeim sem njóta friðunar í krafti aldurs, má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, spilla, granda eða breyta, hylja, laga, aflaga eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.

Eigendur og ábúendur jarða skulu hlúa að fornleifum á landareignum sínum og viðhalda umhverfi þeirra eftir því sem sanngjarnt getur talist. Minjastofnun Íslands er skylt að veita ráðgjöf og leiðbeiningar í því sambandi.

Minjastofnun Íslands gerir nauðsynlegar ráðstafanir til verndar fornleifum, viðhalds eða endurbóta, en áður skal gera landeiganda eða ábúanda viðvart um þær. Ef nauðsyn krefur lætur Minjastofnun Íslands rannsaka fornleifar með uppgreftri eða á annan hátt.

Friðlýstum fornleifum skal viðhaldið á kostnað ríkisins. Minjastofnun Íslands ber ábyrgð á friðlýstum fornleifum og semur verk- og fjárhagsáætlun um viðhald þeirra.

Umhverfis friðlýstar fornleifar er 100 metra friðhelgað svæði

Í 22. gr. laganna er fjallað um „Friðhelgun og merkingar“:

Fornleifum sem eru friðlýstar skal fylgja 100 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra og umhverfis nema kveðið sé á um annað. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði umhverfis friðlýstar fornleifar eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands. Friðhelgað svæði umhverfis aðrar fornleifar, sem ekki eru friðlýstar en njóta friðunar, skal vera 15 metrar nema annað sé ákveðið.

Minjastofnun Íslands skal sjá til þess að friðlýstar fornleifar eða minjastaðir séu auðkennd með sérstökum merkjum. Upplýsingaskilti eða aðrar merkingar við friðlýstar fornleifar skulu vera í samræmi við reglur sem stofnunin setur og skal staðsetning þeirra vera háð samþykki stofnunarinnar.

15 metra friðhelgað svæði umhverfis friðaðar minjar

„Meðal þess sem er nýtt í lögunum og við fögnum hjá Minjastofnun er að friðhelgað svæði í kringum friðlýstar minjar er nú 100 metrar, en það var 20 metrar í eldri lögum. Þá er nýjung í minjaverndarlögum að inn kemur ákvæði um 15 metra friðhelgað svæði kringum friðaðar minjar en slíka mörkun skorti í eldri lögum,“ skrifar Kristín Huld Sigurðardóttir í „hugleiðingum sínum um breytt umhverfi minjaverndar“ í Árbók HIF 2012 (2013).

Á vefsíðu Minjaverndar segir m.a. um framkvæmdir við friðlýstar fornleifar:

„Umhverfis friðlýstar fornleifar er 100 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði umhverfis friðlýstar fornleifar og á fornleifunum sjálfum eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands“.

Í riti um „Skógrækt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga“ er m.a. fjallað um áhrif skógræktar á menningarminjar: „Það er gert við mat á áhrifum skipulagstillögunnar á umhverfið. Sem dæmi má nefna að skógrækt getur haft áhrif á gróðurfar, ásýnd lands og nærveður og einnig á svæði sem njóta verndar, s.s. vegna vatns, náttúrufars eða menningarminja“.

Nauðsynlegt að festa í sessi samvinnu skógræktar og minjavörslu til að tryggja hagsmuni minjaverndar

Í umsögn Minjastofnunar um lýsingu vegna gerðar landsáætlunar í skógrækt LSK2020 til Umhverfis og Auðlindaráðuneytisins þann 30. janúar 2020 segir m.a.:

„Nýrækt skóga getur haft í för með sér umbyltingu lands og raskað einstökum fornleifum sem og haft áhrif á minjaheildir og menningarlandslag. Því er nauðsynlegt að festa í sessi samvinnu skógræktar og minjavörslu til að tryggja hagsmuni minjaverndar.“

Í 1. mgr. 21. gr. laga um menningarminjar segir: „Fornleifum […] jafnt þeim sem eru friðlýstar sem þjóðminjar og þeim sem njóta friðunar í krafti aldurs, má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, spilla, granda eða breyta, hylja, laga, aflaga eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands”.

Mikilvægt er að það sé skýrt að allar fornleifar (sem uppfylla skilyrði 3. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012) er friðaðar og taka þarf tillit til þeirra og þess menningarlandslags sem þær tilheyra þegar horft er til skógræktar. Í 4. gr. laga um skóga og skógrækt nr. 33/2019 segir: „Nánar tiltekið skal í áætluninni gerð grein fyrir: a; forsendum fyrir vali á landi til skógræktar með tilliti til náttúruverndar, minjaverndar og landslags.“

Lítil virðing skógræktarfólks fyrir fornleifum á Reykjanesskaganum

Á Reykjanesskaganum hefur skógræktarfólk litla virðingu borið fyrir menningarminjum og öðrum fornleifum. Eftirlit með að trjám og öðrum gróðri sé plantað í einstakar fornleifar eða jafnvel heilar menningarheildir hefur hingað til verið ábótavant, eins og eftirfarandi nokkur dæmi, sem Ómar Smári Ármannsson, sérfræðingur í Reykjanesskaganum og ritstjóri ferlir.is, sanna:

  1. Í friðlýsta Fossárréttina hefur verið plantað trjám með þeim afleiðingum að gamla réttin sést nú varla í landslaginu.
  2. Í Fornasel ofan Brunntorfa í Hafnarfirði hefur trjám verið plantað fast við selshúsin að norðanverðu.
  3. Trjám hefur verið plantað í selin á Baðsvöllum ofan Þorbjarnar í Grindavík. Nokkrum húsanna hefur verið raskað.
  4. Plantað hefur verið trjám í tóftir Njarðvíkurselsins austan Seltjarnar í Njarðvíkurlandi.
  5. Selið í Selbrekkum (nú Sólbrekkum) í Njarðvíkum er nú þakið trjám.
  6. Önnur selstaðan við Róselsvötn ofan Keflavíkur er nú horfin í trjágróður.
  7. Trjám hefur verið plantað í gömlu Hvalsnesleiðina ofan Keflavíkur.
  8. Trjám hafði verið plantað í Snorrastaðaselið við Snorrastaðatjarnir, en þau voru fjarlægð eftir að athygli var vakin á því.
  9. Trjám hefur verið plantað þétt upp við megintóft Hvaleyrarsels við Hvaleyrarvatn ofan Hafnarfjarðar.
  10. Trjám hafði verið plantað í stekk Hvaleyrarsels sunnan vatnsins. Þau hafa að hluta til verið fjarlægð eftir ábendingar.
  11. Trjágróður þekur nú stekk Seldalssels norðan Seldals milli Selhöfða og Stórhöfða.
  12. Trjágróður þekur nú stekk Jófríðarstaðasel í Húshöfða ofan Hafnarfjarðar.
  13. Trjám hefur verið plantað fast við beitarhúsatóft Jófríðarstaða í Húshöfða sem og við seltóftirnar þar skammt frá.
  14. Tré þekja nú stekk Hamarskotssel norðan Sléttuhlíðar ofan Hafnarfjarðar.
  15. Tré þekja rústir fornbýlisins Holukots í Botnsdal í Hvalfirði.

Sjálfsáð tré hylja minjar

Á nokkrum minjasvæðum hafa tré orðið sjálfsáð með þeim afleiðingum að minjarnar eru nánast horfnar, s.s. við Gránuskúta sunnan Gjásels, við Hrauntungufjárskjólið í Hrauntungum, við innganginn í Neðri-Straumsselshella, Sveinsfjárskjól ofan Hafnarfjarðar sem og Öskjuholtsskjólið ofan Vatnsleysustrandar. Lítið virðist við því að gera.

Einstaklingur plantar trjám beint í Óttarsstaðasel

Ómar Smári Ármannsson

Ómar Smári segir það hins vegar vera öllu alvarlegra að dæmi sé um að einstaklingar dundi sér við að planta trjám í fornleifar, án vitundar um hvaða reglur gilda um slíkt. „Nýjasta dæmið er að finna í Óttarsstaðaseli ofan Hafnarfjarðar. Þar hefur einhver fundið sig tilknúinn til að planta aspartrjáarsprotum umhverfis meginseltóftirnar, væntanlega með þeim afleiðingum að þær hverfi í gróður þegar fram líða stundir, auk þess aspir eru aðskotaviðbót við ríkjandi trjágróðurinn í Almenningum.

Óttarsstaðaselið er stórt og áberandi í landslaginu. Þar er nú búið að planta fjölmörgum trjáplöntum.

Óttarsstaðaselið er menningarheild. Þar er, auk selshúsanna, að finna, nátthaga, tvö fyrirhlaðin fjárskjól, stekki og vatnsból. Óvíst er hvort hlutaðeigandi láti sér nægja að nýplanta í selstóftirnar, eða hvort það sé einungis upphafið að stórtækari trjárækt á svæðinu,“ segir Ómar Smári.

Loftmynd sem sýnir Óttarsstaðasel. Nýjan línuveg vegna Suðurnesjalínu 2 má sjá efst.

Miklar heimildir um minjar á Reykjanesskaganum má finna á vefnum www.ferlir.is

Heimildir:

  • Lög um menningarminjar nr. 80/2012, 3., 21. og 22. gr.
  • Ný lög um minjavernd – hugleiðingar um breytt umhverfi minjaverndar, Kristín Huld Sigurðardóttir. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2012 (2013).
  • www.minjastofnun.is/media/skjol-i-grein/Arbok-HIF-181-196.pdf
  • www.minjastofnun.is/minjar/fridlystar-fornleifar/
  • www.skipulag.is/media/attachments/Skograektogskipurlag_2017_lores.pdf
  • Umsögn Minjastofnunar um lýsingu vegna gerðar landsáætlunar í skógrækt LSK2020 til Umhverfis og Auðlindaráðuneytisins þann 30. janúar 2020.
  • Lög um skóga og skógrækt nr. 22/2019

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2