fbpx
Mánudagur, nóvember 25, 2024
target="_blank"
HeimFréttirMeðalhraðaeftirlit hefst á þriðjudag

Meðalhraðaeftirlit hefst á þriðjudag

Meðalhraðaeftirlit á tveimur vegarköflum verður gangsett á þriðjudaginn kl. 12.

Í fyrsta sinn á Íslandi verður sú aðferð notuð að reikna út meðalhraða bifreiða á milli tveggja punkta á sjálfvirkan hátt. Rannsóknir sýna að sjálfvirkt hraðaeftirlit  virkar vel til að halda niðri umferðarhraða og fækka slysum.  Meðalhraðaeftirlit er þó enn áhrifaríkara en punkthraðaeftirlit að mati Vegagerðarinnar. Vonast er til að hægt verði að fjölga meðalhraðaköflum á næstu misserum.

Aðferðinni verður beitt í Norðfjarðargöngum annars vegar og á Grindavíkurvegi, milli Bláalónsvegar og Grindavíkur, hins vegar.

Undirbúningur hefur staðið yfir frá árinu 2017 en tilraun með sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit hér á landi var fyrst gerð árið 2015 með aðstoð norsku vegagerðarinnar.

Vegagerðin ber ábyrgð á tæknilegri framkvæmd eftirlitsins, en Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á úrvinnslu og innheimtu sekta.

Uppsetningu búnaðarins í Norðfjarðargöngum og á Grindavíkurvegi lauk fyrir nokkru og vottaður kvörðunaraðili hefur tekið kerfið út. Vonast er til að hægt verði að fjölga meðalhraðaköflum á næstu misserum en  framhaldið ræðst af fjárveitingum. Hraðamyndavélar eru fyrst og fremst settar upp á köflum þar sem slys eru mörg, en einnig er lögð áhersla á að setja slíkan búnað upp í jarðgöngum til að draga úr líkum á að slys verði.

Punkthraðaeftirlit eða meðalhraðaeftirlit

Á Íslandi hefur sjálfvirkt punkthraðaeftirlit verið virkt um alllangt skeið, en Vegagerðin kom fyrst að rekstri þess árið 2006 í tengslum við umferðaröryggisáætlun stjórnvalda.

Sjálfvirkt punkthraðaeftirlit virkar þannig að hraði ökutækja er mældur á ákveðnum stað á vegi og mynd tekin af þeim ökutækjum sem ekið er hraðar en leyfilegt er.

Sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit byggir hins vegar á því að meðalhraði ökutækis sem fer tiltekna vegalengd er reiknaður út með því að deila í vegalengd með tíma.  Þá vinna tvær myndavélar saman fyrir hvora akstursstefnu, þar sem önnur er staðsett í byrjun kaflans en hin í enda kaflans. Teknar eru myndir af öllum ökutækjum og búnaðurinn greinir hversu lengi ökumaður var að aka á milli myndavélanna og reiknar þannig út meðalhraða ökutækisins á kaflanum. Ef útreiknaður hraði er meiri en leyfilegt er telst viðkomandi ökumaður brotlegur og eftir það sér lögregla um frekari úrvinnslu og sektarboð. Öll gögn eru dulkóðuð og myndir af þeim sem ekki eru brotlegir eyðast sjálfkrafa í myndavélunum. Eftirlitskaflarnir hafa verið merktir með skiltum sem gefa eftirlitið til kynna.

Góð reynsla í Noregi

Í Noregi og víðar hafa áhrif sjálfvirks meðalhraðaeftirlits á umferðaröryggi reynst afar jákvæð. Samkvæmt skýrslu Transportøkonomisk institutt, sem kom út árið 2014, fækkaði slysum með meiðslum á fólki um 12-22% og alvarlega slösuðum og látnum fækkaði um 49-54% á köflum þar sem sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit hafði verið sett upp. Þessar tölur eiga við um vegarkaflann milli myndavéla, en auk þess hafa vélarnar áhrif utan vegarkaflans eða allt að þrjá km frá hvorri myndavél.

Samkvæmt norsku rannsókninni hefur sjálfvirkt punkthraðaeftirlit einnig mjög jákvæð áhrif á umferðaröryggi, en alvarlega slösuðum og látnum fækkar þó hlutfallslega meira með sjálfvirku meðalhraðaeftirliti og einnig er áhrifasvæði meðalhraðaeftirlits lengra en áhrifasvæði punkthraðaeftirlits.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2