Hafnarfjarðarbær áformar framkvæmdir á íþróttasvæði Hauka að Ásvöllum í Hafnarfirði.
Framkvæmirnar fela m.a. í sér fjölnota knatthús og æfingavelli. Fyrirhugaðar framkvæmdir eru í samræmi við Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025, og breytingu á aðalskipulagi sem tók gildi 12.03.2020 þar sem gert er ráð fyrir að knatthúsið verði staðsett næst Ástjörninni.
Fyrirhugað framkvæmdasvæði liggur á eldhrauni sem nýtur sérstakrar verndar auk þess sem svæðið liggur við Ástjörn sem er friðlýst svæði vegna náttúrufars.
Fullt mat á umhverfisáhrifum nauðsynlegt
Skipulagsstofnun tók ákvörðun um matsskyldufyrirspurn þann 13. júlí 2021 og var það niðurstaða hennar að fyrirhugaðar framkvæmdir væru þess eðlis að þær þyrftu að fara í gegnum fullt mat á umhverfisáhrifum.
Sjónræn áhrif og áhrif á grunnvatnsstöðu skoðuð
Helstu forsendur fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar er óvissa um sjónræn áhrif framkvæmda og áhrif á grunnvatnsstöðu sem kann að hafa áhrif á vatnafar Ástjarnar og lífríki hennar. Í ljósi ákvörðunar Skipulagstofnunar hefur Hafnarfjarðarbær hafið matsferli, um umhverfismat framkvæmda og áætlana, þar sem áhersla verður lögð á að gera grein fyrir ofangreindum atriðum.
Hvað er í matsáætluninni?
Í matsáætluninni er fjallað um hvernig áætlað er að staðið verði að mati á umhverfisáhrifum. Gerð er grein fyrir helstu framkvæmda- og áhrifaþáttum framkvæmdar, rannsóknaráætlun, fyrirhugaðri gagnaöflun, hvernig niðurstöður mats á umhverfisáhrifum verða settar fram í umhverfisskýrslu og hvernig verði staðið að kynningu og samráði.
Framkvæmdir sem verða umhverfismetnar eru:
- Fjölnota knatthús. Stærð íþróttahússins er 9.900 m². Mænishæð yfir miðju vallar er 25 m en 12 m yfir hliðum. Gert er ráð fyrir ca. 900 m² þjónustubyggingu samtengdri
knatthúsinu. - Fjórir æfingavellir, sem eru á bilinu 40 m x 55 m til 55 m x 75 m.
Í matinu verðu metnir kostir tveggja kosta, valkosts A sem er bygging knatthúss skv. núverandi skipulagi, nyrst á svæðinu, næst Ástjörn og valkosts B sem er bygging skv. fyrra deiliskipulagi frá 2010, syðst á svæðinu, sunnan við núverandi grasvöll.
Knattspurnuvellirnir eru nær eins í báðum valkostunum, en skv. skýringarmynd frá fyrra deiliskipulagi er einn völlurinn ofan á friðlýstum minjum, en þær eru rangt staðsettar á kortinu til vinstri á myndinni hér að ofan.
Að auki er sk. núllkostur, að ekkert verði úr framkvæmdum en Hafnarfjarðarbær telur hann ekki raunhæfan.
Í matsáætlun er jafnframt gerð grein fyrir þeim rannsóknum og gögnum sem aflað verður til að leggja mat á umhverfisáhrif valkosta.
Á þessu stigi fær almenningur, hagaðilar, leyfisveitendur og fagstofnanir tækifæri til að koma á framfæri ábendingum.
Allir geta veitt umsögn
Allir geta veitt umsögn um matsáætlunina en umsagnir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 28. desember 2021 til Skipulagsstofnunar bréfleiðis eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is
Umhverfismat vegna þessara framkvæmda hefst með þessari kynningu á matsáætlun vegna framkvæmdanna.
Hvað gerist svo?
Á öðru stigi matsferilsins er gerð umhverfismatsskýrsla.
Unnið er að öflun gagna og lagt mat á umhverfisáhrif framkvæmdar sem ákveðið hefur verið að meta samkvæmt matsáætlun. Greint er frá niðurstöðum matsins í umhverfismatsskýrslu. Í skýrslunni er m.a. gerð grein fyrir helstu umhverfisáhrifum valkosta, niðurstöðum rannsókna, samræmi valkosta við fyrirliggjandi áætlanir og tillögum um mótvægisaðgerðir og vöktun.
Á grundvelli niðurstaðna umhverfismatsins og samanburðar á valkostum tekur framkvæmdaaðili ákvörðun og rökstyður þann kost sem hann telur ákjósanlegastan.
Umhverfismatsskýrslan fer í formlegt umsagnarferli, sem felur í sér að Skipulagsstofnun óskar eftir umsögnum fagstofnana og leyfisveitenda. Auk þess kynnir Skipulagsstofnun fyrirhugaða framkvæmd fyrir almenningi. Skýrslan verður einnig kynnt á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar og vefsjá. Gert er ráð fyrir að haldinn verði kynningarfundur á kynningartíma skýrslunnar. Allir fá tækifæri til að gera athugasemdir við niðurstöðu matsins og koma með ábendingar.
Að lokinni kynningu gefur Skipulagsstofnun álit sitt um umhverfismat framkvæmdarinnar. Þegar álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir er hægt hefja umsóknarferli fyrir leyfisveitingar.
Áætlað er að það verði í fyrsta lagi í maí 2022.
Fleiri skýringarmyndir gerðar
Í umhverfismatsskýrslu verður gerð grein fyrir mögulegri ásýnd svæðis eftir að framkvæmdum er lokið og valkostir bornir saman. Útbúnar verða fleiri ásýndarmyndir og bætt við ljósmyndapörum sem sýna mögulega ásýnd svæðis fyrir og eftir að framkvæmdum er lokið, séð frá jörðu niðri. Útbúnar verða slíkar myndir fyrir báða valkosti.
Stefnt er að því að staðsetning ljósmyndanna verði a.m.k. frá gönguleið á stöðum sem sýndar eru á þessari mynd.