Vegagerðin sendi Hafnarfjarðarbæ þann 18. október sl. bréf með óskum um áframhaldandi viðræður vegna skila á vegum sem féllu úr tölu þjóðvega við setningu laga nr. 80/2007. Þar stendur m.a.:
„Vegagerðinni er heimilt að semja við sveitarfélög um yfirfærslu vega frá Vegagerðinni til sveitarfélaga sem færðust úr flokki stofnvega við gildistöku laga nr. 80/2007. Heimilt er að Vegagerðin annist veghald veganna eða semji við sveitarfélögin um það til ársloka 2019.“
Starfshópur um skilavegi hefur síðan verið að störfum og stutt er síðan Hafnarfjarðarbæ var tilkynnt um skil á vegi nr. 470-01, sem er hluti vegar sem Vegagerðin kallar Fjarðarbraut, en það er Strandgata, Fjarðargata, Reykjavíkurvegur að Fjarðarhrauni í Engidal. Vegurinn er ekki talinn meginstofnvegur sem tengi saman sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.
Starfshópurinn hefur haft það verkefni að leysa úr álitamálum þessu tengdu, t.d. um hvaða vegir uppfylli ekki skilyrði um að teljast stofnvegir skv. lögum, í hvaða ástandi þeim skuli skilað og hvort og þá hvaða fjármagn fylgi með þeim til sveitarfélaganna vegna áframhaldandi rekstrar þeirra.
Hafa enga hlutdeild í skatttekjum af umferð
Töluverðar deilur hafa verið um skilgreiningar og kostnað og í bókun Sambands íslenskra sveitarfélag frá í júlí sl. segir:
„Fulltrúar sambandsins hafa haldið því til haga í viðræðunum að við yfirfærslu skilavega færist árlegur rekstrarkostnaður veganna frá ríki til sveitarfélaga. Á umferðarmiklum vegum er um verulegan kostnað að ræða og á umferðarmestu vegunum þarf árlegt viðhald. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ítrekað kallað eftir viðræðum við ríkið um leiðir til að tryggja sveitarfélögum sanngjarna hlutdeild í sköttum af umferð og telja fulltrúar sambandsins að sú ástands- og kostnaðargreining sem farið hefur fram í tengslum við vinnu starfshópsins undirstriki þörf á að slíkar viðræður fari fram í tengslum við yfirstandandi vinnu við endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga.“
Hafnarfjarðarbær mótmælir
Hafnarfjarðarbær hefur mótmælt því að vegur nr. 470-01 sé ekki stofnvegur og segir veginn meðal fjölförnustu gatna og sé ekki eingöngu innanbæjarvegur fyrir Hafnfirðinga, hann tengi kjarna Hafnarfjarðar við aðra þéttbýliskjarna á höfuðborgarsvæðinu og sé viðbótartenging við hafnarsvæðið sem sé mikilvæg öryggistenging. Þá sé vegarkaflinn hluti af Borgarlínu í nýjum samgöngusáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið.
Vegagerðin telur vegarkaflann hins vegar bera öll einkenni miðbæjargötu og uppfylli ekki kröfur um greiðfærni og umferðaröryggi til að teljast stofnvegur.
Hafnarfjarðarbær mótmælti einnig að Kaldárselsvegur frá kirkjugarði að Flóttamannavegi væri skilavegur og sagði hann hluta af framtíðarsýn Vegagerðarinnar um Ofanbyggðaveg. Vegagerðin féllst ekki á sjónarmið Hafnfirðinga og sagði að ef af slíkum vegi yrði, yrði hann ekki stofnvegur.
Flóttamannavegurinn
Með bréfinu var tilkynnt formlega að Elliðavatnsvegur nr. 410-02 (Flóttamannavegur) falli einnig undir niðurstöðu starfshóps um skilavegi og óskaði Vegagerðin eftir áframhaldandi viðræðum vegna skila á veginum.
Vegagerðin bendir á að hún hafi annast viðhald á veginum skv. sérstakri undanþáguheimild sem renna átti út í árslok 2019 en hefur verið tvíframlengd og nú til lok þessa árs. Niðurstaða starfshóps um skilavegi, sem skipaður er fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Vegagerðarinnar, er sú að vegurinn skuli færast í veghald Hafnarfjarðar eigi síðar en 1. janúar 2022 að uppfylltum nánari skilyrðum um viðhaldsástand.
Tekið fyrir í bæjarráði í morgun
Á fundi bæjarráðs í morgun gerði Sigurður Haraldsson sviðstjóri grein fyrir stöðu viðræðna við Vegagerðina. Í fundargerð ráðsins er bókað að bæjarráð veki athygli á því að Ofanbyggðavegur sé skilgreindur sem stofnvegur í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins en því hefur Vegagerðin mótmælt eins og kemur fram hér að ofan.
Bæjarráð fer því fram á að vegurinn verði ekki skilgreindur sem skilavegur og verði því áfram í umsjón Vegagerðarinnar.