fbpx
Mánudagur, desember 23, 2024
target="_blank"
HeimFréttirAðventa – tími vonar og kærleika

Aðventa – tími vonar og kærleika

Jólahugvekja sr. Jónínu Ólafsdóttur, sóknarprests í Hafnarfjarðarkirkju:

Vökvaðu kærleikans viðkvæmu rós
Þá veitist þér andlegur styrkur,
kveiktu svo örlítið aðventuljós
þá eyðist þitt skammdegismyrkur
(Hákon Aðalsteinsson)

Senn líður að lokum þessa árs, 2021. Það er gjarnan í mörg horn að líta þegar horft er um öxl. Sumt fellur í gleymsku á meðan annað er þess eðlis að erfitt er að líta framhjá því. Það hefur sannarlega margt á daga okkar drifið undanfarið ár, m.a. vegna heimsfaraldursins sem ekki virðist ætla svo glatt að láta staðar numið. Við sem þjóð höfum hins vegar sýnt það, að í sameiningu búum við yfir miklum styrk. Styrk sem felst fyrst og fremst í því að standa saman þegar á reynir. Að sjálfsögðu finnum við mörg fyrir þreytu og ótta en fyrst og fremst er það ákveðnin í að standa saman sem er gegnumgangandi. Og þá finnur maður til stolts að fá að tilheyra þjóð sem kann þetta og getur þetta.

Nú er langt liðið á aðventuna þetta árið og tími ljóss og friðar því í nánd. Orðið aðventa þýðir „koma“ og vísar til þess að hin mikla hátíð er handan við hornið. Á aðventunni undirbúum við okkur undir jólin, en hjá okkur kristnu fólki snýst aðventan um undirbúninginn fyrir komu Jesúbarns­ins sem fæddist á jólum. Við bjóðum Jesúbarnið sérstaklega velkomið í líf okkar á þessum tíma. Aðventan er hins vegar ekki bara undirbúningstími jólanna heldur er hún líka fasta, svo­kölluð jólafasta. Oftast tengjum við orðið föstu við hófsemi í mat. Jóla­fastan snýst hins vegar ekki eingöngu um það heldur snýst hún almennt um það að við prófum okkur sjálf, skoðum og íhugum hvað það er sem gefur lífinu gildi í raun og veru og hvers vegna við þurfum á þeim boðskap sem jólin boða, að halda. Að fasta getur þýtt það að temja sér hófsemi og láta eitthvað á móti sér. Einkum og sér í lagi til að geta gefið öðrum. Aðventa er líka tími vonarinnar. Þegar mesta myrkur ársins skellur á kveikjum við á ljósum, til vitnis og minningar um fæðingu litla Jesúbarnsins og til að minna okkur á vonina sem aldrei hverfur. Mörg okkar finna til söknuðar á þessum árstíma, ekki síst þau sem hafa þurft að kveðja ástvini sína fyrir aldur fram. Þá er mikilvægt að við sýnum samferðafólki okkar tillitssemi og nærgætni á þessum dimmasta og stundum kaldasta tíma ársins, því öll erum við að fast við eitthvað sem kannski sést ekki alltaf utan á okkur.

Í lok árs fáum við tækifæri til íhug­unar og skoðunar. Við minnumst góðu stundanna og sigranna, með gleði og stolti. Erfiðu stundirnar sem vöktu hjá okkur sorg fljóta líka í gegnum hugann og gera öðruvísi vart við sig en gleðistundirnar á leið sinni þar um. Það getur reynst erfitt að kveðja það sem liðið er og kemur ekki til baka, en það er hollt fyrir okkur að líta yfir farinn veg og gera upp liðna tíma. Sum okkar finna til sorgar þegar uppgjör á sér stað, hvort sem minningin vekur hjá okkur sorg eða gleði. Það er alltaf erfitt að skilja við. Þegar við rifjum upp liðna stund virðumst við mann­fólkið hins vegar hafa tilhneigingu til þess að minnast frekar mistakanna, feilsporanna eða skammarlegu augna­blikanna – og dvelja lengur yfir þeim minningum en sigrunum, hvernig sem á því stendur. Öll gerum við mistök einhvern tímann á lífsleiðinni. Upp­lifum vanmátt, samviskubit, jafnvel eftirsjá. Það hvernig við bregðumst við því mótlæti, hvernig við ákveðum að takast á við breyskleika okkar – skiptir hins vegar öllu máli. Viljum við sökkva niður í djúpið eða ætlum við að rísa upp aftur, horfa í spegilinn og sættast við þá manneskju sem þar birtist okkur, fyrirgefa henni og halda svo áfram með bættar og breyttar áherslur? Horfum frekar fram á veginn, setjum okkur metnaðarfull markmið sem þó eru raunhæf og ögrum svolítið okkar eigin getu. Reyn­um að ákvarða hvernig við viljum lifa, hvers við óskum og hvaða tækifæri við sjáum. Hvaða ógnir við sjáum. Mótum svo okkar eigin stefnu því skipulag hefur tilhneigingu til að rætast.

Þiggjum hvern dag sem lán því ekkert annað höfum við í hendi en það augnablik sem er hér og nú – og þá setningu skulum við taka með okkur inn í árið sem er handan við hornið.
Nýtum hverja stund og tökum henni fagnandi. Við vonumst svo til að geta tekið á móti ykkur sem flestum, án nokkurra takmarkanna, í Hafnar­fjarðarkirkju á nýju ári.

Guð gefi ykkur gleðiríka jólahátíð og blessunarríkt nýtt ár!

Sr. Jónína Ólafsdóttir,
sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2