Matarbúðin Nándin við Austurgötu hefur stækkað og dafnað að undanförnu en verslunin í núverandi mynd var opnuð árið 2020.
Margir eldri Hafnfirðingar muna eftir samnefndri búð, Matarbúðinni, sem þarna var um langt skeið og seldi úrval matvara. Eftir að hún hætti var ýmis starfsemi í húsinu en hjónin Þóra Þórisdóttir og Sigurður Magnússon keyptu húsið og áratugur er síðan þau stofnuðu fyrirtækið Urta Islandica sem hóf starfsemi í húsinu. Þóra er mikil áhugamanneskja um íslenskar jurtir og hóf að skoða hvað hægt væri að gera úr þeim. Var farið að framleiða jurtate og í framhaldi af því jurtakryddsölt og fyrirtækinu óx fiskur um hrygg. Öll framleiðslan var í húsinu og hver krókur og kimi nýttur. Nú hefur öll framleiðslan verið flutt í Reykjanesbæ.
Fjölskyldan vinnur saman
Ávallt var þó nafn Matarbúðarinnar á húsinu og það var svo á þjóðhátíðardaginn í fyrra sem þau hjón og í raun fjölskyldan opnaði Matarbúðina Nándina, sem leggur áherslu á að selja vörur í plastlausum umbúðum, m.a. í endurnýtanlegum glerkrukkum.
Er búðin í raun partur af draumi fjölskyldunnar að lifa plastlausu lífi og taka þannig virkan þátt í að leggja sitt af mörkum gegn loftlagsvanda heimsins.
Öll fjölskyldan kemur að rekstrinum, Þóra er framkvæmdastóri, Sigurður er framleiðslustjóri og börnin þeirra starfa með, Guðbjörg Lára og Þangbrandur eru í fullu starfi en Kolbeinn, Lárus og Sigrún Birta koma einnig að rekstrinum. Þá er Hólmfríður, systir Þóru, bókarinn í fyrirtækinu.
Vilja vinna að hringrásarhagkerfi
Segja þau að ekki vanti hugmyndir og metnaðurinn er greinilega mikill og margt gert til að stuðla að sjálfbærari neyslu. Segja þau hugarfar fólk vera að breytast og fólk horfi meira á sjálfbærni og hreinar vörur. Fólk komi víða að til að versla og sífellt fleiri skili glerílátunum. Segir Þóra að stefnan sé að stuðla að hringrásarhagkerfi og eitt af þeim skrefum er að setja upp á nokkrum stöðum móttökukassa fyrir endurnýtanlegt gler en undirbúningur að því er langt kominn.
Ótrúlegt úrval
Matarbúðin Nándin býður upp á úrval af sælkeramatvörum frá ýmsum smáframleiðendum og vöruúrvalið er ótrúlegt í þessari litlu verslun þar sem hver krókur og kimi er nýttur. Af vöruflokkum má nefna ýmsa dagvöru s.s. mjólkurvörur, brauð, sætabrauð, sælgæti, ávexti, grænmeti, kjöt, fisk, lífrænan ávaxtasafa, kryddvörur, te og kaffi, veganvörur og hreinlætisvörur.
Þá eru ýmsar vörur tilvaldar til gjafa m.a. glæsilegar plastlausar gjafakörfur í ýmsum stærðum, stútfullar af íslensku matarhandverki.
Eru bæjarbúar hvattir til að kíkja við í þennan rótgróna verslunarstað og skoða úrvalið.