fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimFréttirSkipulagsmálDeiliskipulagstillaga fyrir Ásland 4 samþykkt til auglýsingar í bæjarstjórn

Deiliskipulagstillaga fyrir Ásland 4 samþykkt til auglýsingar í bæjarstjórn

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum 9. febrúar sl. að auglýsa deiliskipulag fyrir Ásland 4 samhliða breytingu á aðalskipulagi Áslands 4 og 5 í samræmi við skipulagslög. Mun bæjarbúum þá gefast tækifæri til að koma með ábendingar og athugasemdir við skipulagstillöguna.

Eins og fram hefur komið sat einn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hjá við afgreiðslu málsins en bæjarfulltrúinn var andsnúinn því að sérlausnir í sorphirðu væru notaðar í hverfinu, lausnir sem ekki væri í samræmi við nýlegar tillögur starfshóps, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem gerir ráð fyrir tveimur tvískiptum tunnum við hvert hús. Í deiliskipulagstillögunni sem bæjarstjórn samþykkti með 10 atkvæðum af 11 er hins vegar gert ráð fyrir djúpgámum en allt að 150 m geta verið frá húsum að næsta djúpgámi. Undantekning frá þessari reglu verður að valkvætt er að hafa „gráu tunnuna“ á einbýlishúsalóðum.

Skipulagssvæðið

Deiliskipulagsuppdrátturinn. Byggðin í Skarðshlíð lengst til vinstri og hesthúsin í Hlíðarþúfum efst til hægri.

Svæðið sem um ræðir markast af Ásfjalli með Mógrafarhæð sem stingst inn í svæðið frá norðri, íbúðarbyggð Áslands 3 í norðaustri, Ásvallabraut í austri og suðri og loks íbúðarbyggð í Skarðshlíð í vestri.

Svæðið er hugsað sem íbúðarhverfi í framhaldi af eldra hverfum beggja vegna, þ.e. Ásland 3 og Skarðshlíðarhverfi. Frá opnu svæði á kolli Ásfjalls og Mógrafarhæðar munu grænir geirar liggja niður hlíðarnar og tengja háholtið við nærliggjandi svæði og brjóta upp byggðina í hlíðinni í minni reiti. Stígatengingar verða við nærliggjandi íbúðarsvæði og Áslandsskóla og áfram niður í eldri hverfi bæjarins. Einnig verða tengingar við fyrirhugað mið- og skólasvæði í Grófum sunnan Ásvallabrautar og áfram yfir Bláberjahrygg, Vatnshlíðarhnúk og Vatnshlíðarhorn til suðurs í upplandið. Stutt er í útivistarsvæðin við Hvaleyrarvatn auk skógræktar og fjölbreyttrar náttúru víðsvegar í upplandi bæjarins.

Áherslur deiliskipulagsins

Meginhugmynd deiliskipulagsins er lágreist byggð, uppbrotin og lífleg umvafin grænum svæðum og geirum sem ganga niður hlíðina og tengja háholtið við nærliggjandi svæði. Geirarnir eru trjávaxin skjólbelti og brjóta upp byggðina í hlíðinni í minni reiti. Megin einkenni svæðisins eru eins, tveggja og á nokkrum stöðum þriggja hæða byggð einbýlis-, par-, rað- og fjölbýlishúsa sem raðað er meðfram þvertliggjandi húsgötum í hlíðinni. Nýjar safngötur Mógrafarás og Grófarás, liggja frá Ásvallabraut upp í hlíðina.

Eitt aðalmarkmið skipulagsins er að nýta einstakt útsýni til suðurs í átt að Helgafelli og Lönguhlíðum. Annað mikilvægt markmið er að taka mið af veðurfari. Hluti af því að ná árangri með skjólsæla byggð er að hafa áþekka hæð á byggðinni sem þá hleypir vindi auðveldar yfir sig. Uppbrotnar byggingar tefja vind og koma í veg fyrir virkni vindgangna. Þar sem byggðin verður þéttust er reiknað með raðhúsabyggð sem er er ákjósanleg til skjólmyndunar.

Gróður skipar einnig stórt hlutverk í skjólmyndun sbr. grænir trjávaxnir geirar sem skera byggðina á nokkrum stöðum. Í skilmálum er kveðið á um að setja skjólvirki/ vindbrjóta ofan og/eða utan á byggingar og einnig tilmæli um að nýta svalahandrið og gróður til að bæta veðurlag á þakgörðum og umhverfis byggingarnar.

Skýringaruppdráttur. Smella má á myndina til að sjá hana stærri.

528 nýjar íbúðir

Alls er gert ráð fyrir 542 íbúðum í hverfinu en 14 hús eru þegar komin og eru nú innst í Áslandi 2 en verða skv. fyrra skipulagi og núverandi hluti af Áslandi 3. Þau 528 sem eftir eru skiptast á eftirfarandi hátt:

  • Einbýlishús á einni hæð – E1: 38
  • Einbýlishús á tveimur hæðum – E2: 85
  • Einbýlishús á þremur hæðum – E2: 9
  • Parhús – P1: 30
  • Keðjuhús – R1: 49
  • Skeifur – R2: 33
  • Raðhús – R3: 39
  • Fjórbýli – F1: 90
  • Sexbýli – F2: 90
  • Fjölbýli, skeifur – F3: 71

Gert er ráð fyrir allt að 8 deilda leikskóla í hverfinu.

Húsagerðir

Gróðurþök ef þakhalli er lítill

Meðal ákvæða er að hús með þakhalla undir 15° skulu þakin grænu yfirborði. Heimilt er að hafa aukaíbúð, þó ekki sem séreignahluta, m.a. í einbýlishúsum á tveimur hæðum.

Samgöngur

Gatnakerfi byggðarinnar er skipulagt og hannað þannig að það hefur góðar innbyrðis tengingar við alla hluta hverfisins og nærliggjandi hverfi. Göturými er hannað þannig að það sé aðlaðandi, öruggt og aðgengilegt fyrir alla vegfarendur.

Í samræmi við Aðalskipulag Hafnarfjarðar munu nýir stígar tengja svæðið innbyrðis og við önnur hverfi bæjarins. Innan við hljóðmön verður stofnstígur meðfram allri Ásvallabraut. Að vestanverðu verður tenging yfir stíg sem liggur frá Ástjörn að Hvaleyrarvatni og áfram niður í Skarðshliðarhverfi. Til norðurs tengjast stígar opnu svæði Ásfjalls á Mógrarfarhæð og Ásfjallsöxl vestari. Í austri eru stígatengingar við Ásland 3 og til suðurs er reiknað með tveimur þverunum á Ásvallabraut við vegtengingarnar inn í hverfið.

Hjólastæði skulu vera undir þaki í sérhverju húsi eða bílageymslu.

Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir 2 bílastæðum á hverja íbúð í fjölbýlis-, rað- og parhúsum en 3 bílastæðum í einbýlishúsum.

Ofanvatnslausnir

Í skipulaginu er gert ráð fyrir að ofanvatn sem fellur á þétta fleti innan skipulagssvæðisins renni á yfirborði að blágrænum ofanvatnslausnum. Markmið blágrænna ofanvatnslausna á svæðinu er að tefja rennsli ofanvatns og hreinsa ofanvatn frá þéttum flötum.

Ofanvatnslausnir í Áslandi 4 byggja á því að ofanvatn sem fellur innan tiltekinnar lóðar sé meðhöndlað innan lóðamarka, komist í jarðveg og sígi þar niður. Einnig skulu öll ný bílastæði fyrir utan bílakjallara, vera með gegndræpu yfirborði.

 

Deiliskipulagið er unnið af hafnfirsku arkitektastofunni Batteríinu.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2