Lyfjafyrirtækið Florealis hefur ráðið Hafnfirðinginn Karl Guðmundsson sem nýjan forstjóra félagsins. Hann tekur við starfinu af Kolbrúnu Hrafnkelsdóttur sem hefur leitt fyrirtækið frá stofnun þess árið 2013.
Undanfarin þrjú ár hefur Karl verið forstöðumaður útflutnings og fjárfestinga hjá Íslandsstofu en þar áður var hann sölu- og markaðsstjóri Florealis um fimm ára skeið.
Karl starfaði um árabil í Bandaríkjunum í ýmsum stjórnunarstöðum m.a. hjá Össuri, Biomet og Ekso Bionics. Hann er sjúkraþjálfari að mennt og hefur MBA gráðu frá Rady School of Management UCSD.
„Það er mjög spennandi að koma aftur að Florealis og styðja við frekari markaðssókn fyrirtækisins. Vörur fyrirtækisins hjálpa þúsundum einstaklinga við fjölmörg vandamál á borð við svefnleysi, kvíða og þvagfærasýkingar. Við finnum mikið þakklæti frá okkar viðskiptavinum og vaxandi þörf fyrir lausnir á borð við þær sem Florealis selur,“ segir Karl í tilkynningu.
„Eftir situr mikið stolt af því sem við höfum áorkað á þessum tíma. Ég hef fulla trú á Karli og því öfluga teymi sem mun leiða áframhaldandi vöxt Florealis næstu árin. Ég hlakka til að fylgjast með félaginu vaxa og dafna til framtíðar og mun halda áfram að styðja við félagið sem stór hluthafi,“ segir Kolbrún.
Stjórnarformaður Florealis er Hafnfirðingurinn Guðbjörg Edda Eggertsdóttir.