fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimUmræðanBætt aðgengi að sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu 

Bætt aðgengi að sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu 

Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar

Í síðasta mánuði birtust fréttir þess efnis að bráðainnlögnum á Barna- og unglingageðdeild Landspítala, BUGL, hefði fjölgað mikið á síðustu tveimur árum og að álag á starfsfólk hefði aldrei verið jafn mikið. Það má rekja til alheimsfaraldurs Covid-19 en þessi aukning bætist ofan á þunga stöðu sem var fyrir Covid. Erfið staða á BUGL minnir okkur á mikilvægi þess að gera geðheilbrigðismál að forgangsmáli. Reynslan af samfélagsáföllum eins og alheimsfaraldri sýnir okkur að það getur tekið nokkurn tíma fyrir áhrif af völdum þeirra að koma fram og almennt koma þeir hópar sem standa höllum fæti fyrir verr út úr þeim. 

Vanræktur málaflokkur

Í kosningabaráttunni fyrir síðustu alþingiskosningar í haust kom fram mikill samhljómur hjá forystufólki flokkanna um að geðheilbrigðismál væru eitt stærsta samfélagsmálið í dag. Málaflokkurinn hefur verið vanræktur af stjórnvöldum alltof lengi og löngu orðið tímabært að setja hann í algjöran forgang. Orð eru til lítils ef ekki fylgja efndir og því miður hefur ríkisstjórnin alls ekki sýnt það í verki að hún ætli að fylgja umræðunni eftir af neinum dug.  

Aukin sálfræði- og geðheilbrigðisþjónusta lykilatriði

Mikilvægi heilsusamlegra lífshátta verður ekki vanmetið og bæjarfélagið á að gera allt sem í valdi þess stendur til þess að auðvelda fólki hreyfingu og virka þátttöku allra í samfélaginu. Andleg og líkamleg heilsa haldast nefnilega í hendur. Þess vegna er aukin sálfræði- og geðheilbrigðisþjónusta eitt mikilvægasta verkefni okkar í heilbrigðismálum í dag. Í bæjarstjórn mun Samfylkingin berjast fyrir því að að fjölga sálfræðingum á heilsugæslu og innan skólakerfisins. Við munum einnig leggja áherslu á að auka umræðu og fræðslu um andlega heilsu innan bæjarkerfisins og skólanna. Einnig leggjum við allt kapp á að halda allri gjaldtöku í lágmarki enda lítum við jafnaðarmenn á sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu sem sjálfsagðan hluta hinnar almennu heilbrigðisþjónustu og viljum tryggja jafnt aðgengi allra óháð efnahag. 

Samfylkingin mun berjast fyrir auknu aðgengi almennings í Hafnarfirði að fjölbreyttri geðheilbrigðisþjónustu og vinna að því að skipulag nærumhverfis íbúa styðji við lýðheilsu og þar með bætta geðheilsu. 

Árni Rúnar Þorvaldsson
skipar 3. sætið á lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2