Frá og með 1. maí 2021 mun Pósturinn dreifa bréfum tvisvar í viku um allt land. Áður var bréfum dreift annan hvern dag en breytingin er viðbragð við verulegri fækkun bréfasendinga.
Segir Hörður Jónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Póstinum að bréfum hafi fækkað gríðarlega á síðustu árum og að fjöldi bréfasendinga hafi dregist saman um tæp 80% frá árinu 2010.
„Þetta er mikil breyting sem gerir það að verkum að við þurfum að breyta þjónustunni í samræmi við nýjan raunveruleika. Á blómaskeiði bréfanna fór Pósturinn með mörg bréf í hverja lúgu, nú er kannski farið í þriðju til fjórðu hverja lúgu með að meðaltali eitt bréf. Á sama tíma fjölgar íbúðum ört víðs vegar um landið sem eykur yfirferð sem þarf að fara yfir,“ segir Hörður.
„Það þarf enginn að örvænta, enda munum við að sjálfsögðu sjá til þess að allir haldi áfram að fá bréfin sín reglulega. Ef dreifing fellur á frídag eða hætta þarf við hana vegna veðurs eða af öðrum ástæðum munum við gæta þess að farið sé af stað við fyrsta tækifæri,“ segir Hörður.
Á sama tíma hækkar verðskrá póstsins fyrir bréfasendingar
Frá 1. maí mun verð hækka úr 224 kr. í 230 kr. fyrir allt að 50 g bréf og er hækkunin 2,7%. Aðrir þyngdarflokkar hækka örlítið minna.
Verðskrá fyrir magnpóst hækkar hins vegar um 5,6% og mun kosta 170 kr. fyrir allt að 50 g bréfasendingu.