Undirbúningur að byggingu reiðskemmu Sörla og knatthúss Hauka hefur staðið árum saman. Í gær var samþykkt í bæjarráði Hafnarfjarðar að fela umhverfis- og skipulagssviði að undirbúa útboð á fyrstu áfangum á knatthúsi Hauka og reiðhöll. Á einföldu máli þýðir bókunin fyrir Sörla og Hauka að halda skuli áfram að undirbúa það sem hefur verið í undirbúningi allt kjörtímabilið. Og skóflustunga var tekin að báðum framkvæmdum fyrir tæpu ári, en eina sem hefur gerst er að búið er að moka ofan í þær aftur. Samþykkt bæjarráðs í gær er því svokölluð, “EKKI FRÉTT”. Halda á undirbúningi áfram sem þegar hefur verið gangi misserum saman.
Innihaldslaus loforð
Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur sögðu á fundum með félagsmönnum Sörla og Hauka í apríl, að undirbúningi að reiðhöll og knatthúss væri lokið og útboð á framkvæmdum yrði auglýst næstu daga. Hvorugt hefur gerst. Og mun ekki eiga sér stað á kjörtímabilinu. Þessi loforð reyndust innihaldslaus. Sörlamenn og Haukamenn sitja eftir með loforð – en engar efndir.
Látum verkin tala
Við jafnaðarmenn stöndum við gefin loforð. Við höfum lýst því skýlaust yfir að við munum standa við áform og loforð um byggingu reiðskemmu og knatthúss. Þegar við tökum við stjórn bæjarins eftir bæjarstjórnarkosningarnar 14. maí nk. munum við ganga í málin og og láta verkin tala – að sjálfsögðu!
Stefán Már Gunnlaugsson,
skipar 5. sæti lista Samfylkingarinnar – jafnaðarmanna í Hafnarfirði og er í starfshópi um uppbyggingu reiðhallar Sörla