fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimUmræðanHönnunar- og lista­bær­inn Hafnarfjörður

Hönnunar- og lista­bær­inn Hafnarfjörður

Hafnarfjörður er æði, það vitum við öll. Notalegur bæjarbragur, nánd við hafið og fjöldi lítilla og skemmtilegra þjónustu­fyrirtækja hafa skapað þá stemmingu um árabil og þannig hefur þetta verið lengi. Þegar Sædýrasafnið var og hét voru apar, ljón og ísbirnir einkenni Hafnarfjarðar. Síðar snérust vindar meira í átt að álfum, hrauni og víkingum. Myndrænar tenging­ar sem þessar lifa enn í hjörtum og hugum bæjarbúa og sýna að fleiri tækifæri verða til þegar sköpunargáfum íbúa er flaggað.

Nú fjölgar Hafnfirðingum og bærinn dreifir úr sér umhverfis Ásfjallið og von er á Tækniskólanum að suðurhöfninni. Fleiri þjónustuíbúðir aldraðra og nýtt skipulag í Hraunahverfinu eru einnig á dagskrá. Ekki má gleyma því að flestir flugfarþegar sem koma til Íslands um Leifsstöð fara í gegnum Hafnarfjörð á leiðinni til annarra landshluta og svo oftast á bakaleiðinni.

Með fjölgun ferðamanna og íbúa er eðlilegt að Hafnarfjörður verði áfram eftirsóknarverður kostur fyrir þá sem kjósa að heimsækja bæinn eða flytja í hann. Ferðafólk leitar gjarnan að fjöl­breytni í menningu, hönnun og listum sem má njóta á staðnum eða kaupa og taka með sér heim. Því er nauðsynlegt að skoða hvernig Hafnarfjörður getur stutt við hönnunariðnað, listir og smáverslun í Hafnarfirði og stuðlað þar með að áframhaldandi sérstöðu bæjarins sem hönnunar- og listabæ.

Píratar vilja efla menningar- og tóm­stundastarf fyrir ungt fólk á öllum aldri og finna upp hvata fyrir skapandi greinar með tækifærum til að stunda hannyrðir, hönnun og listir sem geta leitt til áhugaverðra tækifæra fyrir bæjarbúa og gesti. Góð byrjun væri að efna til Barna­menningarhátíðar í Hafnarfirði og tryggja áframhaldandi rekstur Gaflaraleikhússins. Einnig þarf bærinn að bjóða upp á húsnæði og rými þar sem íbúum gefst kostur á að iðka, sýna og selja sköpunar­verk sín, því slíkt mun gera Hafnarfjörð betri til framtíðar.

Albert Svan Sigurðsson og Hallur Guðmundsson,
frambjóðendur í 3. og 10. sæti fyrir Pírata í Hafnarfirði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2