fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimUmræðanFlokksmaskínurnar eira engu

Flokksmaskínurnar eira engu

Sigurður Pétur Sigmundsson skrifar

Erfitt er fyrir minni framboðin að keppa við Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna sem virðast hafa úr töluverðum fjármunum að spila ef marka má auglýsingar og útgáfu fjölda blaða. Við þessu mátti búast og lítið við það að athuga. Maskínur þessara flokka láta þó ekki þar við sitja heldur eru að störfum úthringiteymi sem ætlað er að ná í sem flesta bæjarbúa í því skyni að reyna að fá þá á sitt band sem ekki eru búnir að ákveða sig. Engu er eirt í þessum efnum, ekki einu sinni oddvitum annarra framboða. Fyrir þremur dögum hringdi í mig ungur maður frá Samfylkingunni sem spurði hvort ég gæti hugsað mér að kjósa þann flokk. Í gær var svo hringt í konuna mína frá Sjálfstæðisflokknum. Í fyrstu fannst mér þetta fyndið en svo fer maður að hugsa hvort lýðræðið eigi að virka svona. Er þetta, kjósendur góðir, ekki merki um frekju og yfirgang? Þið veltið þessu fyrir ykkur.

„Atkvæði greidd öðrum gagnast ekki“

Þetta sagði Kristinn Andersen, bæjarfulltrúi og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, í grein á visir.is í morgun. Þetta kom mér á óvart því mér hefur alltaf líkað vel við Kristin sem er hinn ágætasti maður. Ólíkt honum að vera með svona hrokafullar staðhæfingar. Á Kristni er að skilja að hann vilji að samsetning bæjarstjórnar sé sem einsleitust. Um þetta er ég honum algerlega ósammála. Tel mikilvægt að breiddin í bæjarstjórn sé góð og að ólík sjónarhorn fái að koma þar fram. Þannig næst yfirleitt besta niðurstaðan við úrlausn mála.

Vinnum fyrir Hafnfirðinga

Við í Bæjarlistanum erum ekki valdasjúk. Við viljum komast til áhrifa til að vinna að framfaramálum í þágu bæjarbúa. Við teljum okkur geta gert það vel enda innan okkar raða fólk með víðtæka reynslu og þekkingu á mörgum sviðum. Við viljum fjárfesta í framtíð barnanna og þar með unga fólksins með því að efla leikskólastarfið, starfið í grunnskólunum og styðja við fjölbreytt íþrótta – og æskulýðsstarf. Eitt það mikilvægasta í því efni á næstunni er uppbygging knatthúss Hauka en mikil fjölgun íbúa er framundan á starfssvæði félagsins. Við viljum líka vinna að bættri þjónustu við aldraða og fjölda annarra góðra mála.

Ágæti kjósandi. Er ekki bara best að leyfa lýðræðinu að hafa sinn gang. Við treystum þér fyllilega til að ákveða hvað þú kýst. Vonum hins vegar að þú eigir samleið með okkur í Bæjarlistanum.

Sigurður Pétur Sigmundsson,
oddviti Bæjarlistans

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2