fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimKynningAðalsteinn Hrafnkelsson upplýsir um framkvæmdirnar í Suðurbæjarlaug

Aðalsteinn Hrafnkelsson upplýsir um framkvæmdirnar í Suðurbæjarlaug

Aðalsteinn Hrafnkelsson hefur verið forstöðumaður sundlauganna í Hafnar­firði í rúman áratug. Fulltrúi Fjarðarfrétta lagði nokkrar spurningar fyrir Aðalstein um Suðurbæjarlaug en talsverð umræða hefur verið um lokun hennar í sumar.

Hvers vegna þarf að loka útisundlaug á háannatímanum yfir sumarið?

Öll mannvirki þurfa á viðhaldi að halda og aðalástæða þess að það þurfti að loka í sumar var að unnið var að nauð­synlegu viðhaldi á flísum í rennum við sundlaugarbakkann. Því þurfti að tæma laugina af vatni og flísaviðgerðir við útilaug er einungis hægt að framkvæma að sumri til.

Af hverju er Suðurbæjarlaug vinsæl?

Umhverfi laugarinnar og garðurinn hefur sitt að segja og það eru margir sem vilja frekar synda úti heldur en inni og þá spillir ekki fyrir að vera í notalegu umhverfi. Innilaugin er ákaflega vel heppn­uð fyrir lokaða tíma af ýmsum toga. Svo má ekki gleyma líkamsrækt Gym Heilsu í kjallaranum og það að geta farið ræktina samhliða sundheimsókn er mjög hentugt.

Núna er verið að brjóta og vinna á útisvæðinu, hvað er í bígerð þar?

Það er verið að búa til barnvæna vað­laug í framhaldi af „sveppnum“ svo­kallaða, jafnframt verður byggt húsnæði þar sem áður var áhorfendastúkan og þar sett upp eimbað ásamt laugarvarðarrými. Að endingu verða útbúnir tveir niður­grafnir kaldir pottar með mismunandi hitastigi. Minnt er á að á meðan fram­kvæmdum stendur verður laugin opin með ákveðn­um takmörkunum.

Þegar verið er að ákveða að breyta einhverju eða setja eitthvað nýtt tæki upp í lauginni, hver er það sem ákveður slíkt?

Það er gert í samráði yfirstjórnar lauganna og framkvæmdasviðs bæjarins því oftar en ekki krefst slík aðgerð sérstakrar fjárveitingar utan hefðbundins reksturs lauganna.

Nú er stórt útisvæði með grasi og trjám á lóð laugarinnar, hvað finnst þér að væri hægt að gera fyrir þetta svæði þannig að bæjarbúar gætu notið þess betur?

Ég horfi einkum til þess að bæta sólbaðsaðstöðu laugarinnar og svo til þátta tengdri lýðheilsu t.d. gæti lítill frisbígolfvöllur hentað aðstæðunum. A.m.k. þarf að líta til þess að nýta þetta fallega umhverfi betur en nú er.

Lokaorð

Njótum sundlauganna í bænum. Þær er ólíkar að gerð og henta mismunandi sundiðkun sem er ótvíræður kostur í okkar ágæta bæjarfélagi.

Viðtalið birtist fyrst í Fjarðarfréttum 10. tbl. 20. árg., 14. september 2022

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2