fbpx
Fimmtudagur, júlí 18, 2024
HeimFréttirFjóluhlíð er stjörnugata ársins - MYNDIR

Fjóluhlíð er stjörnugata ársins – MYNDIR

Verðlaunin Snyrtileikinn voru afhent nýlega

Veittar voru viðurkenningar fyrir snyrtileika við hátíðlega athöfn í Hafnarfirði sl. fimmtudag.

Fjóluhlíð 5-17 og 6-18 er stjörnugata ársins

Íbúar við Fjóluhlíð fögnuðu.

Snyrtileg falleg gata í Setberginu með húsabyggð frá árunum 1998-2000. Þessi gata hefur verið falleg um árabil eins og svo margar götur í Setbergshlíðinni. Samstaða íbúa götunnar er mjög sýnileg sem endurspeglast í hreinum og snyrtilegum görðum og fallegum jólaljósum á aðventunni. Gróðurinn er fjölbreyttur og öll götumynd virkilega falleg þar sem gamla góða hekkið stendur vel fyrir sínu. Það er ekki sjálfgefið að íbúar standi svo vel saman og fá íbúar hrós fyrir samstöðuna og fyrir þá hvatningu sem þeir gefa öðrum.

Fallegustu og snyrtilegustu garðarnir 2022

Eigendur níu garða í bænum fengu viðurkenningu fyrir að eiga fallegustu og snyrtilegustu garðana í Hafnarfirði. Val til viðurkenninga byggir á ábendingum bæjarbúa.

Háabarð 2

Þessi garður er mjög snyrtilegur og vel hirtur og vekur athygli þegar farið er um Háabarðið. Eigandinn hefur greinilega áhuga á garðrækt og ekki síður grænmetisræktun, því að í beðum voru ræktaðar kartöflur, grænkál og fleiri nytjajurtir.

Einihlíð 8

Það er afar ánægjulegt að keyra inn Einihlíðina og sjá þennan glaðlega garð sem tekur vel á móti gestum götunnar. Fallegu tóbakshornin allsráðandi að sumri og hádegisblómin í fullum blóma. Í fallegu gróðurhúsi er mikið af fallegum plöntum og greinilega mikill áhugi á ræktun sem smitar frá sér og veitir innblástur og hvatningu.

Furuvellir 21

Mjög fallegur garður á Völlunum, vel slegnar grasflatir og fjölbreytni í beðum bæði í runnum og fjölærum plöntum. Skemmtilega klippt tré. Vakti strax athygli þegar keyrt var inn Furuvellina.

Hópurinn sem mættur var við athöfnina.

Klettahraun 23

Gott dæmi um garð sem hefur orðið glæsilegri með hverju árinu. Garðurinn blasir við þegar gengið er upp göngustíginn frá hraunsvæðinu við Mánastíg og að Klettahrauni. Mikið af grjóti til að taka upp hæðarmun. Falleg ásýnd þegar er horft er frá bílastæði að húsi. Náttúran og hið stórbrotna útsýni myndar skemmtilega umgjörð um þennan garð.

Móabarð 28

Greinilega mikill og lifandi áhugi á plöntum og garðvinnu og búið að nostra við hvert smáatriði. Fjölbreytt úrval af fjölærum plöntum. Garðinum hefur verið mjög vel við haldið og hefur fengið áður viðurkenningu.

Einihlíð 5

Hér er að finna falinn fjársjóð og bak við hús blasir við ævintýraveröld. Hver einasti hlutur á sínum stað, allir kantar vel klipptir og nostrað við hvert smáatriði. Það var upplifun að sjá hversu mikill og fjölbreyttur gróður var í þessum garði. Tjörnin svo falleg og gróðurinn speglast í vatninu.

Lækjarhvammur 18

Falleg aðkoma, einstaklega fjölbreytt og snyrtileg með miklu úrvali plantna. Lítil tjörn í bakgarði með miklu úrval af gróðri, allir kantar klipptir og skornir og gangstéttin sópuð. Mikill áhugi á garðrækt.

Brekkuhlíð 20

Glæsilegur garður þar sem við blasir fagmennska og tilfinning fyrir formum og rýmum. Þessi litli garður er með ótrúlega fjölbreytt garðrými sem tengjast saman með tröppum sem gegna líka hlutverki setstæði eða búa til flatir fyrir potta eða pullur. Hér fær notagildi og fegurð notið sín og litla gróðurhúsið setur punktinn yfir i-ið

Skipalón 10-12 og 14

Margar lóðir við Skipalónið eru mjög snyrtilegar og fallegar. Skipalón 5 hefur áður fengið viðurkenningu og núna er það klasinn frá 10-14 sem hlýtur viðurkenningu fyrir snyrtilegan bakgarð með vel sleginni grasflöt og fallegum trjá- og runnabeðum. Aðkoma frá bílastæði er mjög falleg og snyrtileg með fallegum sumarblómum í kerjum. Lítið leiksvæði með rólu. Þessi fjölbýlishúsalóð er til fyrirmyndar.

Boðið var upp á fallega skreyttar veitingar.

Snyrtilegustu fyrirtækin 2022

Andrea – Vesturgata 8

Eigendur Artwerk og Andreu hafa gert upp fallegt hús við Vesturgötu 8 á reit Byggðasafns Hafnarfjarðar. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til. Lóðin er ekki stór en verslunin og húsið til mikillar prýði á reitnum og rímar vel við það umhverfi sem það stendur við.

Júlíus Jónsson, forstjóri HS-Veitna tók við viðurkenningu fyrir lóð fyrirtækisins í Hafnarfirði.

HS veitur – Selhellu

Það er sérstakt ánægjuefni að veita viðurkenningar fyrir frágang lóða á athafna- og iðnaðarsvæðum. Hér er um að ræða tiltölulega nýlegt hús á athafnasvæði og strax við byggingu hússins var farið í að móta lóðina. Hér má sjá gott samtal við umhverfið, grjót og náttúrutorf með starfsmannaaðstöðu á myndarlegum palli sem snýr á móti sólu. Bílastæði fyrir rafmagnsbíla og stæði fyrir hjól.

Fríkirkjan fékk heiðursverðlaun

Fulltrúar Fríkirkjunnar þökkuðu fyrir sig.

Fríkirkjan í Hafnarfirði er reisuleg, stendur hátt og gnæfir yfir hjarta Hafnarfjarðar, sjálfan miðbæinn. Hún hefur margþættu hlutverki að gegna, er opin fyrir fjölbreyttri menningarstarfsemi ásamt því að vera griðarstaður þeirra sem þurfa á nærveru, kærleika, hlustun og skilningi að halda. Kirkjan er mikilvægur hlekkur í samfélaginu í Hafnarfirði.

Allir fengu tré með sér heim.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2