fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimÁ döfinniBleika slaufan - SÝNUM LIT

Bleika slaufan – SÝNUM LIT

Árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, Bleika slaufan, undir slagorðinu „SÝNUM LIT“ er hafið. Bleika slaufan er tileinkuð baráttunni gegn krabbameinum hjá konum.

Í lok ársins 2020 voru 9.056 konur á lífi hér á landi, sem greinst höfðu með krabbamein. Á hverju ári greinast að meðaltali um 870 konur með krabbamein en því miður deyja um 300 konur að meðaltali á ári úr krabbameinum.

Sterk tengsl eru milli lifnaðarhátta og krabbameina og í Bleiku slaufunni í ár vekur Krabbameinsfélagið sérstaka athygli á því hvað hægt er að gera til að draga úr líkum á krabbameinum. Hjá konum spila skimanir fyrir krabbameinum einna stærsta hlutverkið. Krabbameinsfélagið hvetur konur til að bóka tíma þegar þær fá boð. Því fyrr sem krabbamein eða forstig þess greinist því betri eru horfurnar.

Bleika slaufan er næla en Sparislaufan er hálsmen

Hönnuðir slaufunnar í ár eru þau Helga Friðriksdóttir og Orri Finnbogason hjá Orrifinn Skartgripum. Slaufan er fléttuð úr þráðum þar sem hver þráður gæti táknað hvert og eitt okkar og hvernig við leggjum málstaðnum lið. Við erum sterkust saman.

Saga Ásdísar

Í auglýsingu Bleiku slaufunnar í ár er okkur sögð saga Ásdísar Ingólfsdóttur, framhaldsskólakennara og rithöfundar, sem greindist með brjóstakrabbamein í tvígang með fimm ára millibili. „Ég vona að það verði þeim sem eru að glíma við brjóstakrabbamein í dag hvatning að sjá að það er von“. Ásdís segir að það ylji að sjá einstaklinga bera Bleiku slaufuna því það sýni að viðkomandi hafi lagt Krabbameinsfélaginu lið í baráttunni við krabbamein.

Bleika slaufan kostar 2.900 krónur og er seld á bleikaslaufan.is og fjölmörgum söluaðilum um land allt. Að vanda verður Sparislaufa Bleiku slaufunnar til sölu í takmörkuðu upplagi hjá Krabbameinsfélaginu, Orrifinn og hjá Meba í Kringlunni.

Krabbamein varða okkur öll. Með kaupum á Bleiku slaufunni sýnum við lit.

Málið er brýnt og varðar okkur öll

Öll starfsemi Krabbameinsfélagsins byggir á stuðningi almennings og fyrirtækja í landinu.  Markmið Krabbameinsfélagið eru skýr: að fækka þeim sem fá krabbamein, að fjölga þeim sem lifa af og bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. Í fjölbreyttu starfi félagsins og aðildarfélaga þess er unnið að þessum markmiðum.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2