fbpx
Laugardagur, nóvember 16, 2024
target="_blank"
HeimFréttirAtvinnulífHandverksbrugghús á Hólshrauninu

Handverksbrugghús á Hólshrauninu

Fjölbreytt framleiðsla hjá fjölskyldufyrirtækinu Íslensk hollusta

Við Hólshraunið hefur á undanförnum árum byggst upp fyrirtæki sem hefur vaxið og dafnað og selur nú vörur sínar til fínustu veitingahúsa á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum.

Hjónin Eyjólfur Friðgeirsson og Bergþóra Einarsdóttur ásamt Ragnheiði Axel, dóttur sinni.

Eyjólfur Friðgeirsson líffræðingur stofnaði fyrirtæki árið 2005 ásamt konu sinni Bergþóru Einarsdóttur og hét upphaflega Hollusta úr hafinu enda byggðist starfsemin á vinnslu sjávarþörunga. Síðar var nafninu breytt í Íslensk hollusta í takt við fjölbreyttari framleiðslu fyrirtækisins.

Saga Eyjólfs er að mörgu leyti áhugaverð. Hann lærði líffræði í Sovétríkjunum, vann hjá Hafrannsóknarstofnun, vann lengi við fiskeldi, gerðist búddisti og er vígður munkur. Hann hefur dvalist í klaustri og í einu slíku í Kaliforníu vaknaði áhugi hans á þara en Zen búddistar nota mikinn þara í sína matargerð.

Íslensk hollusta er stöðugt að stækka við sig á Hólshrauninu

Það var þá sem hann stofnaði fyrirtækið og vann aðallega vörur úr þara. En fljótt fór hann að safna íslenskum jurtum, tíndi ber og vann úr þessu úrvalsvörur en í dag starfa 8 manns við sjálfa framleiðsluna en alls eru um 100 manns að vinna fyrir fyrirtækið, t.d. fólk hjá vinnu- og hæfingarstöðinni Viss á Selfossi við pökkun og fjölmargir við að tína íslenskar jurtir og ber.

Sölin þurrkuð og hreinsuð

Sölin eru enn stærst í sölu enda eru þau mikið notuð í nútíma matargerð en vöruúrvalið er orðið mjög breitt. Má þar nefna jurtate, hollustusnakk úr þara, bragðbætt sjávarsalt, krydd og síðan hefur bjór og áfengi bæst við undir vörumerkinu Og natura.

Brugghúsið Og natura

Ragnheiður prófar bjórinn í framleiðslunni.

Ragnheiður Axel, dóttir þeirra hjóna kom inn í reksturinn og segist Eyjólfur vilja draga sig í hlé enda orðinn 78 ára gamall. Ragnheiður, sem er lærður fatahönnuður og hefur starfað sem hönnuður, hefur endurnýjað allt útlit á vörulínu fyrirtækisins og það var hún sem var frumkvöðull að framleiðslu á bjór og öðrum áfengum drykkjum undir vörumerkinu Og natura.  Nýjasta afurðin er bjórinn Hafnarfjarðar Lager sem strax seldist upp í Vínbúðinni. Meðal annarra áfengra drykkja sem unnir eru úr íslenskum jurtum og hráefnum er gin þrennan Wild Icelandic Gin, Haust vodka, Munka ákaviti, Hvannarótarvodka og tilbúnir kokteilar.

Áfengið er framleitt undir merkjum Og natura.
Bjór í ýmsum útfærslum

Með nýrri reglugerð er nú hægt að kaupa framleiðsluvörurnar á Hólshrauninu, beint frá brugghúsinu auk þess sem þau hafa boðið upp á kynningar og móttöku á hópum.

Ekkert fer til spillis

Nýtingin á jurtunum er mjög góð og í framleiðslunni fer lítið til spillis. Í hillum fyrirtækisins má sjá poka með ótrúlega mörgum jurtum; blóðbergi, ætihvannarfræjum, ætihvannarrót, ætihvannarlaufi, þangskeggi, birki, fjallagrösum, hreindýramosa, krækiberjadufti, þurrkuðum hrútaberjum og fl. Sjálf nota þau fjölbreyttar jurtir við framleiðslu á eigin vörum en mikið er selt til veitingahúsa, brugghúsa og hluti fer til heildsala og í smásölu.

Blóðbergir er að verða eitt dýrasta krydd í heimi.

Eyjólfur segir þau ávallt hafa verið dugleg við að kynna sínar vörur á útimörkuðum og verða sem fyrr í Jólaþorpinu þar sem boðið verður upp á fjölbreytt vöruúrval og ekki síst gjafapakka sem hafa verið mjög vinsælir, sérstaklega fyrir jólin.

Vinsælt meðal ferðamanna

Kryddað saltið er vinsælt meðal ferðamanna

Erlendir ferðamenn sækjast mikið í vörur fyrirtækisins og undanfarið hafa vörur tengdar eldgosum verið sérstaklega vinsælar eins og eldfjalla saltstaukar og eldfjallate.

Jurtatein vinsælu

Það er greinilega allt á fullri siglingu í fyrirtækinu, hugmyndirnar greinilega fjölmargar og þau ávallt tilbúin að aðlaga sig að breyttum áherslum og eftirspurn.

Berjasafinn sem einu sinni var búinn til á hverju heimlili.

Sjávarsaltið sem Íslensk hollusta framleiðir.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2