Í ár ætlar Hafnarfjarðarbær að gefa starfsfólki sínu stafræn gjafabréf í gegnum YAY gjafabréfasmáforritið í stað hefðbundinna gjafakorta úr plasti. Eru fyrirtæki í Hafnarfirði hvött til að kynna sér YAY og jólagjafir til starfsfólks.
Er ákvörðunin sögð endurspegla græna vegferð. Fullyrt er að framleiðsla gjafakort úr plasti til starfsfólks hefði annars samsvarað um 400 hálfs lítra plastflöskum.
Starfsfólk hvatt til að versla í Hafnarfirði
Sett verður upp sérstök valsíða fyrir starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar hjá YAY þar sem listuð verða upp þau hafnfirsku fyrirtæki sem skráð eru hjá YAY. Með þessu vill Hafnarfjarðarbær hvetja starfsfólk sérstaklega til verslunar í heimabyggð. Hafnfirsk fyrirtæki voru hvött til að kynna sér YAY gjafabréfin og taka vel á móti þeim. Fyrirtækin þurftu að vera búin að skrá sig til leiks hjá YAY fyrir 1. desember til að vera með á jólagjafalista Hafnarfjarðarbæjar.
Kostnaður færður yfir á verslunareigendur
Nokkurrar óánægju hefur gætt meðal hafnfirskra verslunareigenda sem telja að með þessu sé verið að velta kostnaði yfir á verslanir. Verslanir sem taka á móti gjafabréfunum greiða almennt 10% af upphæð í þóknun, sem er reyndar 12,4% því vsk er lagður á þóknunina. Hafnfirsk fyrirtæki fá tilboð nú, 7%, 8,68% með vsk. Verslunareigendum gefst kostur á að gefa afslátt, láta t.d. gjafabréfið gilda fyrir hærri upphæð en Hafnarfjarðarbær greiðir fyrir en af þeirri upphæð, sem er í raun afsláttur, greiða þeir líka þóknun.
Ef marka má svar samskiptastjóra bæjarins í umræðu um málið, þá verður gjafabréfið að upphæð 11.000 kr. og því verður kostnaður fyrirtækjanna sem taka við kortunum 8,68% af 22 milljónum kr. samtals 1.907.400 kr. Síðustu ára hafa starfsmenn fengið bankakort sem hægt var að nota hvar sem er en kostnaður Hafnarfjarðarbæjar skv. verðskrá Íslandsbanka hefði verið 700.000 kr. en spara sér nú þá upphæð.
Starfsmann þurfa svo að velja sér fyrirtæki í síðasta lagi 14. desember og fá svo gjöfina afhenta 20. desember.
Telur viðmælandi Fjarðarfrétta að með þess sé verið að þröngva bæjarstarfsmönnum til að versla aðeins hjá þeim sem eru með samning við YAY, en áður var hægt að nota kortið hvar sem var. Um 2.000 manns starfa hjá Hafnarfjarðarbæ en á heimasíðu fyrirtækisins má nú finna um 12 fyrirtæki með starfsemi í Hafnarfirði og því miklar líkur á að bæjarstarfsmenn fari út fyrir sveitarfélagið til að nýta sér kortið, með tilheyrandi neikvæðum grænum áhrifum.
Búast megi við að hafnfirskum fyrirtækjum fjölgi a.m.k. nú fyrir jólin.