fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirSkatttekjur hækka um 4,2 milljarða kr. og hálfs milljarðs hagræðingarkrafa

Skatttekjur hækka um 4,2 milljarða kr. og hálfs milljarðs hagræðingarkrafa

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar var samþykkt í gær

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í gær eftir lögbundna síðari umræðu. Nokkrar breytingar eru á áætluninni, tekjuáætlanir hækka og áætlaðar eignir hækka um 1,8 milljarða kr. Mestu munar um að verðmat fasteigna og lóða hækkar um 1,3 milljarða en áætlaða verðmat véla, áhalda og tækja hækkar um 60%.

Gert ráð fyrir 591 milljón kr. rekstrarafgangi

Í frumáætlun var gert ráð fyrir 36 milljón kr. rekstrarafgangi A-hluta bæjarsjóðs en hefur verið hækkað í 591 milljón kr. og áætlaður rekstrarhagnaður B-hluta fyrirtækja, m.a. Vatnsveitu og Fráveitu hækkar úr 555 milljónum kr. í 616 milljón kr. Gert er ráð fyrir að hagnaður Fráveitu verði 46% af rekstrartekjum, hagnaður Vatnsveitu 33,2% og hagnaður Hafnarsjóðs 22,8%.

Heildarrekstrarhagnaður er því áætlaður 1.697 milljónir kr.

Ekki kemur fram í útsendri samþykktri fjárhagsáætlun hverjar tekjur verið af fasteignaskatti en skv. upplýsingum sem fengust er áætlunin var fyrst lögð fram verða tekjur af fasteignaskatti um 4,9% milljarðar kr.

Kemur þetta til vegna áætlaðra hærra útsvars og fasteignaskatta, hærra framlegi Jöfnunarsjóðs og töluverðra hækkunar annarra tekna. Ekki er gert ráð fyrir lækkun á skattprósentu fasteignaskatta og hækka fasteignaskattar fasteignaeigenda því að meðaltali um 20%.

Að sama skapi er gert ráð fyrir hækkun á rekstrarkostnaði, hærri afskriftum og minni fjármagnskostnaði en gert var ráð fyrir við fyrstu framlagningu fjárhagsáætlunar.

Skv. uppfærðri útkomuspá fyrir 2022 er gert ráð fyrir 305 milljón kr. rekstrarhalla A-hluta og 61 milljón kr. rekstrarafgangi þegar búið er að taka tillit til hagnaði af B-hluta fyrirtækjum.

Leikskólagjöld hækka um 7,7%

Hækkun gjaldskrár var endurskoðuð frá framlagningu áætlunarinnar og nú er gert ráð fyrir að t.d. leikskólagjöld hækki um 7,7% en almennt hækki gjaldskrá um 9,5%. Gert er ráð fyrir hækkun á byggingarleyfisgjöldum sem gefi 65 milljón kr. viðbótartekjum.

Skuldir hækka en skuldahlutfall lækkar

Gert er ráð fyrir að langtímaskuldir í lok árs 2023 verði 31,7 milljarðar kr. og hafi hækkað um 12,5% frá uppgjöri árs 2021. Gert er ráð fyrir að heildarskuldir bæjarins verði 56,1 milljarður kr. Í árslok 2023 er gert ráð fyrir að skuldahlutfall bæjarsjóðs verði 131% en skuldaviðmið, sem metur hvort ástæða sé fyrir ríkisvaldið að gera ráðstafanir, haldi áfram að lækka og verði 93% en það skal vera undir 150%.

Gert er ráð fyrir að handbært fé í árslok verði 1.036 milljónir kr. og að veltufé frá rekstri 1.697 milljónir kr.

Framkvæmt fyrir 7 milljarða kr.

Fjárheimild til framkvæmda fyrir árið 2023 er um 7 milljarðar króna. Í áætlun er lögð áhersla á forgangsröðun í þágu grunnþjónustu, svo sem umhverfismála, samgangna, íþróttaaðstöðu, húsnæðis og fráveitumála. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ en er ekki að finna í útsendri samþykktri fjárhagsáætlun.

  • Bygging knatthúss á félagssvæði Hauka
  • Bygging nýrrar reiðhallar á félagssvæði Sörla
  • Gerð blendingsknattspyrnuvallar á félagssvæði FH
  • Lagfæringar á aðstöðu í Íþróttahúsinu við Strandgötu
  • Endurgerð innanhúss í Sundhöllinni sem verður 100 ára á árinu
  • Frágangur á nýbyggingarsvæðum s.s. malbikun, gerð stétta, stíga og leiksvæða
  • Endurgerð gatnamóta og gönguleiða og sérstakt átak í að efla hjólreiðaleiðir
  • Gróður aukinn í hverfum bæjarins og átak í grænkun Valla
  • Fegrun Hellisgerðis á aldarafmæli garðsins
  • Þá verður farið í aðrar framkvæmdir, m.a. í skólum, leikskólum, leiksvæðum og ferðamannastöðum, auk frekari uppbyggingar á Suðurhöfninni og framkvæmda Vatnsveitu og Fráveitu.

Fjárhagsáætlunin nær til næsta árs auk þriggja ára áætlunar fyrir árin 2024-2026.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2