fbpx
Þriðjudagur, desember 17, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanHringdu aftur eftir þrjár vikur

Hringdu aftur eftir þrjár vikur

Jón Ingi Hákonarson og Karólína Helga Símonardóttir skrifa

„Hringdu aftur eftir þrjár vikur og þá skulum við sjá hvort að þú fáir tíma hjá heimilislækni  í júní“. Þetta var svarið sem viðkomandi fékk eftir að hafa beðið í símanum í tvo tíma.

Frásögnin er ekki tilbúningur. Þetta er raunveruleikinn þegar kemur að því að fá tíma hjá heimilislækni í Hafnarfirði. Hvað ef viðkomandi nær ekki í gegn eftir þrjár vikur? Þarf hún þá að bíða enn lengur?

Aðalsmerki Sovétríkjanna sálugu voru langar biðraðir. Því miður eru biðraðir að verða eitt af aðalsmerkjum íslenska heilbrigðiskerfisins. Reyndar köllum við biðraðir nú biðlista þar sem við þurfum ekki að húka úti við í öllum veðrum. Við bíðum núna í símanum.

Það er algjört forgangsmál að bæta aðgengi Hafnfirðinga að heilsugæslu. Lengi hafa verið uppi áform um byggingu þriðju heilsugæslustöðvarinnar í Hafnarfirði sem yrði á Völlunum. Þau áform eru nú áratug seinna enn einungis áform og góður ásetningur, það er kunnuglegt stef.

Það er mikilvægt að bæta aðgengi að heilsugæslu með því að hafa frumkvæði að því að byggja hér upp heilsuklasa í Hamranesinu. Bæjaryfirvöld verða að róa að því öllum árum til að laða til okkar aðila að reka heilsugæslu og heilsuklasa þar sem sjúkraþjálfun, kírópraktor og fleiri, sem vinna að heilsueflingu, sjái sér hag í því að vinna saman að bættri þjónustu, aðgengi og heilsu íbúa Hafnarfjarðar.

Við þurfum að fara að hugsa út fyrir kassann og koma heilsugæslu og heilsuvernd inn í 21. öldina. Staðan eins og hún er nú, er ekki boðleg. Það er skylda okkar sem sitjum í bæjarstjórn að koma þessum málum í betra horf.

Jón Ingi Hákonarson bæjarfulltrúi Viðreisnar

Karólína Helga Símonardóttir varabæjarfulltrúi Viðreisnar

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2