Konukvöld var haldið í verslunarmiðstöðinni Firði sl. föstudagskvöld.
Mikið var um dýrðir, skemmtiatriði, vörukynningar, happdrætti og tilboð í verslunum og hátíðarstemming.
Ný glæsileg verslun, Noma, opnaði á konukvöldinu en verslunin sérhæfir sig í alls kyns ilmum og snyrtivörum og fékk mjög góðar móttökur að sögn Vallýjar Hannesar, eins eigenda Noma.
Vigga og Sjonni skemmtu með fallegum söng og gítarleik sem ómaði um Fjörð, dansarar frá Plié dansskólanum sýndu listir sínar, Elvis Prestley eftirherma heillaði konur upp úr skónum og þá tókst Bjarna Ara ekki síður að heilla viðstadda með glæsilegum söng og hressilegri framkomu.
Vörukynningar voru á göngum og mikið um að vera í verslunum sem buðu upp á hressingu og voru með sérstök tilboð.
Undir lok kvöldsins var nýútnefndur bæjarlistamaður Hafnarfjarðar, Pétur Gautur, heiðraður af verslunarmiðstöðinni Firði og 220 Firði sem stendur að stækkun Fjarðar. Voru honum færð blóm og gjafir.
Glæsilegt vöruhappdrætti sló svo botninn í fjörið og það voru þær Tinna Líf, Ester, Edith og Sólrún sem hömpuðu glæsilegum vinningum í lokin.
Að sögn Guðmundar Bjarna, framkvæmdastjóra Fjarðar, heppnaðist konukvöldið mjög vel og kvaðst hann ánægður með þátttökuna.