fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirÖll sérbýli verða með þrjár sorptunnur

Öll sérbýli verða með þrjár sorptunnur

Öll sérbýli verða með þrjár sorptunnur og bætist við ein tvískipt tunna fyrir lífrænan úrgang og almennt rusl en áður hafði verið kynnt að tunnunum yrði skipt út fyrir tvær tvískiptar tunnur. Var þetta m.a. upplýst í frétt Fjarðarfrétta 6. mars sl.

Í svari við fyrirspurn Fjarðarfrétta um það hvað hafi breytt þessari ákvörðun taldi samskiptstjóri Hafnarfjarðarbæjar að fréttin hafi byggst að einhverju leyti á vinnugögnum. Ekkert kom þó fram í þeim gögnum sem blaðið notaði að svo væri.

Upplýsir samskiptastjórinn að endanleg ákvörðun um samræmt fyrirkomulag fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi verið tekin þarna um svipað leyti, kannski nær mánaðarmótunum mars/apríl. „Þetta fyrirkomulag þótti vænlegasti kosturinn og líklegast til árangurs eftir mikla rýni og skoðun. Íbúar eru beðnir um að prófa nýtt fyrirkomulag a.mk. fram á haustið til að fá tilfinningu fyrir þörfinni við sitt heimili,” segir í svarinu til blaðsins.

Ekki hægt að velja aðra tvískiptingu

Nú er að hefjast innleiðing á nýja sorpflokkunarkerfi í Hafnarfirði, líkt og á höfuðborgarsvæðinu öllu, þar sem fjórum úrgangsflokkum verður framvegis safnað við hvert heimili bæjarins lögum samkvæmt.

    Nýja tvískipta tunnan

Sem fyrr segir bætist ein tvískipt tunna fyrir matarleifar og blandaðan úrgang við sérbýli og fjölbýli fá brúntunnur fyrir matarleifar. Sérbýlin halda þeim tveimur tunnum sem fyrir eru og verða þær endurmerktar fyrir annars vegar pappír (bláatunnan) og hins vegar fyrir plastumbúðir.

Tæmt á 14 daga fresti og 28 daga fresti

Íbúar eru hvattir til að fá góða tilfinningu fyrir magni og flokkun í sumar áður en ákvörðun um breytingu er tekin. Tíðni tæminga er 28 dagar fyrir pappír og plast og 14 dagar fyrir lífrænan og blandaðan úrgang.

Frá og með haustinu er gert ráð fyrir að þeir sem sjá og finna að sérstakar 240 lítra tunnur fyrir pappír og plast sé of mikið geti pantað aðra tvískipta tunnu fyrir pappír og plast.

Nýjum sorpílátum dreift frá 22. maí til 14. júlí

Starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar mun sjá um dreifingu á nýjum sorpílátum. Dreifing í Hafnarfirði hefst mánudaginn 22. maí á Hvaleyrarholti og lýkur föstudaginn 14. júlí á Völlunum. Þeir íbúar sem eru með símanúmer sitt skráð hjá 1819.is fá send SMS smáskilaboð um afhendinguna.

Dreifingaráætlun

22.-26. maí          Hvaleyrarholt – Hverfi 1
30. maí -2. júní    Miðbær og Vesturbær – Hverfi 8
5.-9. júní             Ásland og Norðurbakki – Hverfi 3 og 6
12.-16. júní          Suðurbær – Hverfi 7
19.-23. júní          Norðurbær – Hverfi 5
26.-30. júní          Setberg, Kinnar og Öldur – Hverfi 4
3.-7. júlí              Hraun – Hverfi 6
10.-14. júlí           Vellir – Hverfi 2

Dreifingaráætlun sorpíláta í Hafnarfirði

Karfa og bréfpokar á öll heimili

Samhliða dreifingu á nýjum ílátum munu öll hafnfirsk heimili fá plastkörfu og bréfpoka undir söfnun matarleifa innan heimila. Karfan sér til þess að það lofti um bréfpokann þannig að hann haldist þurr. Bréfpokarnir skipta lykilmáli til að hægt sé að vinna nothæfa moltu úr matarleifunum. Gott er að tæma bréfpokana reglulega í nýja tunnu undir matarleifar.

Hægt að nálgast körfu og poka í þjónustumiðstöð Hafnarfjarðarbæjar

Íbúar í ósamþykktum íbúðum geta nálgast plastkörfu og bréfpoka á opnunartíma í þjónustumiðstöð Hafnarfjarðarbæjar að Norðurhellu 2 frá og með 22. maí.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2