Nýtt götuhlaup, Hafnarfjarðarhlaupið, mun bætast við í íslensku hlaupaflóruna 8. júní nk.
Eins og nafnið gefur til kynna fer það fram í Hafnarfirði og verður 10 km langt og kemst í fámennan hóp hlaupa hér á landi þar sem götum verður lokað og hlauparar munu taka þær yfir.
„Við höfum verið að undirbúa þetta hlaup núna í að verða eitt og hálft ár í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ,“ segir Valur Elli Valsson, einn skipuleggjenda hlaupsins.
Hlaupið um hjarta Hafnarfjarðar
Hlaupið fer að mestu leyti fram í Miðbæ og Norðurbæ Hafnarfjarðar en einnig verður hlaupinn krókur um Garðaholtið.
„Markmiðið með hlaupaleiðinni var að gera eins hraða og fallega braut og við gátum, með upphafs- og endapunkt á Thorsplani, við Strandgötu. Við munum hlaupa við margar af fallegustu götum Bæjarins þar sem íbúar munu geta hvatt hlaupara áfram af dyraþrepinu sínu og eins munum við hlaupa framhjá mörgum af fallegri stöðum bæjarins eins og Flensborgarhamrinum, Læknum og strandlengjunni,“ segir Valur.
Glæsileg umgjörð og samvinna við Hafnarfjarðarbæ
Umgjörð hlaupsins verður einnig glæsileg en skipuleggjendur hafa samið við Nike, Fjarðarkaup og Vitamin Well sem samstarfsaðila hlaupsins og munu hlauparar njóta góðs af því.
„Það eru peningaverðlaun fyrir 3 fyrstu karla-, og kvennahlauparana karla- og fá sigurvegararnir 100.000 kr. að launum auk glæsilegs verðlaunagrips frá Sign skartgripum.“
„Eins verðum við með 6 aldursflokka í hlaupinu og sigurvegarar þessara aldursflokka munu allir fá hlaupaskó frá Nike í verðlaun, en svo verða líka fjölmörg útdráttarverðlaun, svo tímakaupið fyrir sigurvegarana ætti að slá upp í rúmlega 300.000 kr. miðað við að þau verði rúmlega hálftíma með hlaupið,“ segir Valur.
Allir þátttakendur munu fá hressingu á miðri leið og einnig eftir hlaup. Þá verður Suðurbæjarlaug opin til miðnættis og Hafnarfjarðarbær býður öllum þátttakendum í sund.
„Þau hjá Hafnarfjarðarbæ hafa einnig verið alveg frábær í þessum undirbúningi þar sem þau hafa verið með öll praktísk mál tengd götulokunum, skipulagi og aðbúnaði á hreinu,“ segir Valur Elli sem býst við góðri þátttöku.
Hafnarfjarðarhlaupið veður haldið fimmtudagskvöldið 8. júní og hefst kl. 20 en skráning er á hlaup.is