Það er sagt að silfrið sé súrsætt og eflaust á það vel við í úrslitum Íslandsmótsins í handbolta karla þegar Haukar töpuðu fyrir ÍBV í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Eyjum í gærkvöldi.
Fyrir úrslitakeppnina bjuggust fæstir við því að Haukar myndu keppa til úrslita enda rétt slapp liðið inn í úrslitakeppnina og komst í úrslit þar sem þurfti að sigra þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari.
Það leit ekki vel út eftir fyrstu tvo leikina þar sem Eyjamenn voru komnir í 2-0 og þurftu aðeins að vinna einn leik til viðbótar. ÍBV, sem slegið hafði FH út, en FH lenti í öðru sæti í deildarkeppninni, sigruðu í fyrsta leiknum með 6 marka mun og í þeim næsta á Ásvöllum með 3 marka mun.
En þá kom að hlut Hauka. Liðið sýndi sýnar bestu hliðar í þriðja leiknum í Eyjum og sigruðu óvænt með 6 marka mun og staðan var orðin 2-1 fyrir ÍBV. Á heimavelli héldu Haukarnir gleðinni áfram og sigruðu með 3 marka mun og staðan var orðin jöfn og Haukar voru farnir að dreyma titilinn dag sem nótt.
Spennan var gríðarleg fyrir úrslitaleikinn í Eyjum í gærkvöldi og spáðu boltaspekingar Haukum sigurinn. Það var því bjartsýnt Haukafólk sem hélt til Eyja að styðja sitt fólk en nú var gleðin úti. Eyjamenn voru með frumkvæðið allan leikinn og Haukar náðu aðeins að jafna þrisvar í 2-2, 11-11 og 12-12 og mest náði ÍBV 5 marka forskoti þegar 10 mínútur voru eftir og sigruðu svo með tveimur mörkum 25-23.
Haukar eiga heiður skilinn fyrir glæsilega baráttu í úrslitakeppninni og ekki síst fyrir hetjulega endurkomu í úrslitaleiknum geta verið stoltir með silfurverðlaunin.