fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimUmræðanGæði eða gæsla?

Gæði eða gæsla?

Árni Guðmundsson skrifar

Að freista þess að eiga faglega samræðu við Hafnarfjarðbæ á sviði frítímans er svona svipað eins og að skvetta vatni á gæs. Bæjaryfirvöld bregðast ekki við opinberi umræðu né svara erindi frá Félagi fagfólks í frítímaþjónustu, einfaldri fyrirspurn um svokallað „faglegt frítímastarf“ í leikskólum.

Viðbrögð, ef viðbrögð skyldu kalla, er helst að sjá í starfsauglýsingu frá ónefndum leikskóla í bæjarfélaginu varðandi starf við hið „faglega“ frístundastarf. Þar er auglýst eftir áhugasömum leikskóla- og frístundaliða. Menntunar og hæfniskröfur á vettvangi hins faglega frístundastarfs eru m.a þessar: Reynsla af uppeldis- og kennslustörfum er æskilegt. Reynsla af sambærilegum störfum og á leikskóla kostur. Engar sérstakar eða formlegar menntunarkröfur eru gerðar? Varðandi verkefni á vettvangi hins „faglega“ frístundastarfs er þess getið að viðkomandi taki þátt í leikskóla- og frístundastarfi innan leikskólans og öðrum þeim störfum sem fram fara innan skóladagsins, og að starfsmaðurinn taki þátt og komi að hugmyndavinnu og skipulagi á tómstunda- og frítímastarfi innan leikskólans? Í raun og verki hvorki krafa um reynslu né menntun á vettvangi hins faglega frístundastarfs?

Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa því í reynd búið sér til einstaka hafnfirska skilgreiningu á fagmennsku hugtakinu, a.m.k. þegar að um „faglegt“ frístundastarf í leikskólum er að ræða. Skilgreining sem reyndar er á skjön við skilgreiningar allra helstu sérfræðinga og fræðimanna á þessu svið. Þar eru iðulega þættir eins og verk- og fræðileg færni, kunnátta, þekking, menntun, gildi, viðhorf og siðareglur, gjarnan í öndvegi.

Fjarvera sérfræðinga af vettvangi frítímans í þessu máli er æpandi. Það er auðvita einstaklega óviðeigandi að leysa vinnutímaskipulag leikskólakennara samkvæmt kjarasamningum með innihaldslausri tilvísun í fagþekkingu tómstunda- og félagsmálafræðinga sem hvergi koma nærri. Í raun er um að ræða eitthvert kjaratæknilegt atriði sem ekkert má kosta, nema orðagjálfur sbr „faglegt“ frístundastarf. Hið sér hafnfirska „faglega“ frístundastarf í leikskólum er því í raun gæsluvallarstarfsemi eins og hún var í verki fyrir mörgum áratugum. Það eru engar faglegar framfarir í þessu fólgnar nema síður sé.

Kjarni málsins er einfaldalega sá að framkvæmd ákvæðis kjarasamninga leikskólakennara hefur í för með sér skerta þjónustu leikskólanna sem kemur fram í formi aukinnar gæslustarfsemi. Vinsamlegast ekki bendla okkur sem erum sér menntuð á vettvangi frítímans við þetta. Við komum ekki nálægt þessu, í huga þess sem þetta ritar (og örugglega fjölda fólks) er hér einfaldlega um hreinræktað fúsk að ræða.

Árni Guðmundsson

Tómstunda- og félagsmálafræðibraut
Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2