Kjörnir fulltrúar Reykjavíkur hafa tekið ákvörðun um að skoða grundvöll þess að Reykjavík dragi sig út úr rekstri Reykjanesfólkvangs frá árinu 2024.
Kom þetta fram á fundi stjórnar fólkvangsins 24. apríl sl. þar sem rætt var um hvort að fólkvangurinn eða hlutar hans ættu að falla í annan friðlýsingarflokk, jafnvel að verða þjóðgarður eða eitthvað annað fyrirkomulag.
Á fundinum var rifjað upp samtal við fulltrúa Reykjanes Geopark sem laut að því að skoða samstarf en ekki kemur fram að neitt hafi komið út úr því.
Ákveðið var að stjórnarmenn tækju málið upp, hver í sínu sveitarfélagi, og kalla eftir kynningu á Reykjanes Geopark.
Á næsta fundi stjórnarinnar, 23. maí sl. voru sjónarmið annarra sveitarfélaga sem áttu fulltrúa á fundinum um framtíð Reykjanesfólkvangs rædd, en talið að til þess að ákveða næstu skref þurfi að fá öll sveitarfélögin í fólkvanginum að borðinu.
Ómarkviss stjórnsýsla
Á fundinum í maí kom fram að stjórnsýslufyrirkomulag fólkvangsins væri ómarkvisst. Tíð skipti væru í stjórn og óljóst umboð stjórnar, ekki síst fulltrúa sveitarfélaga sem ekki eiga land í fólkvanginum.
Þá liggi hvorki fyrir samstarfssamningur, né stjórnunar- og verndaráætlun um fólkvanginn sem hefur verið kallað eftir skýrum svörum um frá UST. Þar af leiðandi sé brýn vöntun á framtíðarsýn, stefnumörkun og forgangsröðun aðgerða fyrir svæðið, en tilvist Reykjanes Geopark byggi á því að svæðið sé friðlýst.
Ekki eru bókaðar neinar umræður á fundi umhverfis- og skipulagsráð Hafnarfjarðar í gær um málefni Reykjanessfólkvangs en á fundinum voru þessar tvær fundargerðir lagðar fram.
Fékk ekki fundarboð
Sindri Már Jónsson (F) er fulltrúi Hafnarfjarðarkaupstaðar í stjórn ráðsins en hann sat ekki þessa fundi þar sem hann hafði ekki fengið fundarboð. Í samtali við Fjarðarfréttir upplýsti hann að fundur hafi verið haldinn stjórn fólkvangsins nú fyrir skömmu en þar hafi verið almennar umræður og engar ákvarðanir teknar.
Reykjanesfólkvangur
Reykjanesfólkvangur var friðlýstur sem fólkvangur árið 1975 en svæðið sem hann nær yfir er 29.263 hektarar eða 292,6 km². Var það gert að tillögu allra sveitarfélaganna á svæðinu auk Kópavogsbæjar, Reykjanesbæjar, Reykjavíkurborgar og Seltjarnarness, sem ekki eiga land í fólkvanginum.
Auglýsing um fólkvang á Reykjanesi 1975
Málefni bæjarstjórnar
Það hlýtur að vera á verksviði bæjarstjórnar að ræða málefni fólkvangsins en bæjarstjórn Hafnarfjarðar er komin í sumarfrí til 16. ágúst.