fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimUmræðanHjólastefna fyrir Hafnarfjörð samþykkt

Hjólastefna fyrir Hafnarfjörð samþykkt

Jón Ingi Hákonarson og Lilja G. Karlsdóttir skrifa

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti einróma á fundi sínum þann 7. júní hjólastefnu fyrir Hafnarfjörð. Það var að frumkvæði Viðreisnar að þessi vinna fór af stað nú í haust og í höfum við nú í fyrsta sinn heildstæða stefnu í þessum málaflokki fyrir næstu fimm árin

En af hverju er hjólastefna mikilvæg?

Hún er mikilvæg vegna þess að með heildstæðri stefnu verður þessi ferðamáti ekki afgangsstærð þegar kemur að skipulagi nýrra sem gróinna hverfa. Með þessu eru bæjaryfirvöld þannig að gefa hjólreiðum meiri sess þegar kemur að skipulagsmálum.  Hjólastefna er jafnframt fyrsti vísir að samgöngustefnu fyrir bæinn sem hefur sárlega vantað síðustu ár.  Þegar bæjarfélög hafa enga samgöngustefnu er erfitt fyrir bæjarbúa að fylgjast með því  hvernig fjármagni er veitt í mismunandi samgönguframkvæmdir. Það er því hluti af ábyrgum rekstri að hafa áætlanir eins og hjólaáætlun því einungis þannig geta bæjarbúar séð hvernig gengur í hinum ólíku málum og málaflokkum. Við í Viðreisn stöndum fyrir opnum gagnsæjum ferlum þegar farið er með almannafé. Það er hornsteinn almannahagsmuna og lýðræðis.

Hjólastefnan er jafnframt liður í því að bæta aðstöðu til hjólreiða og gera bæjarbúum þannig kleift að nýta sér hjól í meiri mæli til daglegra athafna.  Aukning hjólreiða í bænum er  ekki síður lýðheilsu- og  lífsgæðamál. Hvað er betra en að njóta bæjarins og náttúrunnar hér í kring á reiðhjóli?

Eitt af hlutverkum sveitarfélaga í loftslagsmálum er auka og hvetja til vistvænni ferðamáta eins og göngu og hjólreiðum. Hafnarfjörður gerir það best með því að bæta aðstöðu til hjólreiða og gera fólki kleift að stunda heilbrigðan og vistvænan lífsstíl.

Hjólastefna er samt bara ein hliðin á peningnum, eftirfylgni stefnunnar er hin hliðin og nú verður áhugavert að sjá hvort að núverandi meirihluti láti verkin tala eða hvort stefnan muni safna ryki ofan í skúffu.  Við í Viðreisn hvetjum bæjarbúa til að þrýsta á bæjaryfirvöld að gera stefnuna að veruleika.

Það er gott að búa í Hafnarfirði og með bættum hjólasamgöngum verður hér enn betra að búa.

Jón Ingi Hákonarson, oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn

Lilja G. Karlsdóttir, varafulltrúi Viðreisnar í skipulags og byggingarráði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2