fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirRótarýklúbbur færði Hafnarfjarðarbæ sex bekki á Káldárselsstíginn

Rótarýklúbbur færði Hafnarfjarðarbæ sex bekki á Káldárselsstíginn

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar er eitt þeirra félaga sem hefur land í fóstri í upplandi Hafnarfjarðar en klúbburinn fékk svæði milli Klifsholtanna, ofarlega við Kaldárselsveg, ásamt Inner Wheel klúbbi Hafnarfjarðar um 1980. Þar er í dag orðinn dágóður skógur og rótarýklúbburinn hefur útbúið fallegt rjóður með bekkjum og minningarsteini.

Frá skógarlundi Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar

Þar hittust klúbbfélagar fyrir stuttu og afhentu Hafnarfjarðarbæ formlega sex bekki sem komið hefur verið fyrir á nýja göngu- og hjólastígnum sem mun liggja upp í Kaldársel. Stígurinn er hluti af Græna treflinum, sem er samheiti yfir skógræktar- og útivistarsvæði á útmörkum sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu.

Að sögn Ingvars Geirssonar, nýs forseta Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar kviknaði hugmynd á klúbbþingi klúbbsins um að leggja til nærumhverfisins með því að setja niður bekki á skemmtilegum gönguleiðum.

Ingvar Geirsson, forseti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar

„Fyrsti bekkurinn er rétt innan við hesthúsahverfið Hlíðarþúfur og næsti til móts við Sörlastaði. Sá þriðji er við afleggjarann að Hvaleyrarvatni og svo áfram koll af kolli. Stefnan er að halda áfram að varða leiðina upp í Kaldársel á komandi árum með bekkjum merktum Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar“.

Merkingar á bekkjunum

Bekkirnir eru framleiddir af hafnfirska fyrirtækinu Málmsteypan Hella ehf. Eru bekkirnir steyptir úr endurunnu áli en seta og bak framleidd úr endurunnu plasti.

Á bekkjunum eru skildir með kveðju frá Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar til þeirra sem um stíginn fara.

F.v. Kolbrún Benediktsdóttir, fráfarandi forseti, Ingvar Geirsson forseti klúbbsins og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri.

Ingvar Geirsson, forseti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar og Kolbrún Benediktsdóttir, fráfarandi forseti klúbbsins, afhentu Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, bekkina á fundi klúbbsins 6. júlí sl. á skógræktarsvæði klúbbsins.

Nýr stígur upp á Smalaskálahæð

Klúbburinn hefur nýlega framlengt stíg frá skógarlundi klúbbsins og endurbætt og nær hann nú upp á Smalaskálahæð þar sem er mjög gott útsýni til allra átta.

Varðan á Smalaskálahæð og Helgafell í baksýn.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2