Fimmtudaginn 14. september kl. 20 fögnum við opnun haustsýningar Hafnarborgar í ár, Haustsýning Hafnarborgar í ár nefnist Landslag fyrir útvalda og verður hún opnuð á morgun, fimmtudag kl. 20.
Í tengslum við hátíðina List án landamæra verður einnig opnuð einkasýning Sindra Ploder, Ef ég væri skrímsli, í Sverrissal Hafnarborgar.
Landslag fyrir útvalda
Á sýningunni er myndmál veruleikaflótta kannað. Við búum í heimi öfgafullra yfirvofandi breytinga í samfélagi sem kallar eftir því að einstaklingar beri ábyrgð á hnattrænum vandamálum í síauknum mæli. Að leita á vit flóttans er því orðinn stór hluti hversdagsleikans. Veruleikaflóttinn sem slíkur er ekki nýr af nálinni, heldur hefur hann fylgt okkur um aldanna rás. Birtingarmyndir hans eru og hafa verið margbreytilegar en eiga það flestar sameiginlegt að endurspegla það ástand sem þeim er ætlað að flýja. Auk þess getur flóttinn haft mótandi áhrif á þann sem kýs að flýja á vit annarra heima.
Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru Arna Beth, Fritz Hendrik IV, Margrét Helga Sesseljudóttir, Sól Hansdóttir, Vikram Pradhan, Bíbí Söring og Þrándur Jóhannsson, auk þess sem sýnd eru verk eftir Eirík Smith, Patrick Huse og Sigrid Valtingojer úr safneign Hafnarborgar og Listasafns ASÍ. Sýningarstjórar eru Eva Lín Vilhjálmsdóttir og Odda Júlía Snorradóttir.
Sýningin stendur til áramóta.
Ef ég væri skrímsli
Á sýningunni eru gestir leiddir inn í mynd- og hugarheim listamannsins Sindra Ploder. Sindri hefur teiknað skrímsli frá tólf ára aldri og notast helst við penna og pappír en hefur í seinni tíð einnig fært teikningar sínar yfir í þrívídd og gert skúlptúra í við, keramik, mósaík og textíl. Verk Sindra eru sum hver sjálfsmyndir, þar sem glettni, dirfska og ögrandi gleði leynir sér ekki. Blikið í augum Sindra endurspeglast í teikningunum sem fanga áhorfandann við fyrstu sýn. Sýningarstjóri er Íris Stefanía Skúladóttir, listrænn stjórnandi Listar án landamæra. Björgvin Ploder og félagar munu leika ljúfa tóna við opnunina.
Sýningin stendur til 15. október
Sindri Ploder (f. 1997) hefur tekið þátt í fjölda sýninga síðan árið 2016, nú síðast í sýningunni Brot af annars konar þekkingu sem sýnd var í Nýlistasafninu í ársbyrjun. Þá tók Sindri fyrst þátt í samsýningu á vegum List án landamæra árið 2017, þar sem hann vann með hönnuðinum Munda Vonda. Eins tók Sindri þátt í List án landamæra árin 2019, 2020 og 2022, þar sem hann sýndi teikningar, ullarmottu og viðarskúlptúra. Árið 2019 tók hann listaáfanga í Myndlistaskólanum í Reykjavík og var í kjölfarið með verk á samsýningu í skólanum en Sindri hefur síðan verið í listnámi hjá Fjölmennt, samhliða vinnu í Bjarkarási