fbpx
Fimmtudagur, júlí 18, 2024
HeimFréttirAtvinnulífFarsæl Fjarðarkaup í fimmtíu ár

Farsæl Fjarðarkaup í fimmtíu ár

Boðið til afmælisveislu sem mun standa yfir til laugardagsins 30. september

Fjölmennt hefur verið í Fjarðarkaupum undanfarna daga en verslunin fagnar hálfrar aldar afmæli um þessar mundir.

Verslunin er einstök í sinni röð, öflugt fjölskyldufyrirtæki sem nýtur mikils trausts viðskiptavina enda hefur verslunin ekki aðeins verið með gott vöruúrval heldur einni boðið mjög lágt verð. Fjarðarkaup hefur verið í raun samkomustaður margra Hafnfirðinga sem hafa gefið sér góðan tíma til að spjalla við vini og kunningja á sama tíma og þeir fylla körfu sína af vörum.

Hátíðin stendur til laugardags 30. september og boðið verður upp á köku, mjólk og ís frá fimmtudegi.

Með fyrstu lágvöruverslunum landsins

Verslunin Fjarðarkaup var upphaflega opnuð við Trönuhraun hér í Hafnarfirði þann 7. júlí 1973 og var því með fyrstu lágvöruverðsverslunum sem opnaðar voru hér á landi.

Stofnendur og fyrstu eigendur voru annars vegar hjónin Ingibjörg Gísladóttir og Sigurbergur Sveinsson ásamt dóttur sinni, Hjördísi, og hins vegar Valgerður Jónsdóttir og Bjarni Blomsterberg ásamt Birnu dóttur sinni. Ingibjörg og Sigurbergur keyptu fyrirtækið að fullu á 20 ára afmælisárinu árið 1993 og hafa Fjarðarkaup síðan verið í eigu fjölskyldunnar. Ingibjörg lést í desember árið 2009.

Augljóst er að umtalsverð þörf var fyrir verslun af þessu tagi í Hafnarfirði á sínum tíma. Fyrst um sinn var ekki boðið upp á kjöt, mjólk eða fisk en sú barátta entist ekki lengi og allar þessar vörur voru komnar í búðina árið 1976.

Úr versluninni við Trönuhraun. Ljósm.: Fjarðarkaup

Vörur á brettum á gólfinu

Markmiðið með félaginu var að stofnsetja og reka lágvöruverðsverslun við Trönuhaun í Hafnarfirði. Fyrirkomulagið var farið að ryðja sér til rúms hér á landi og hugmyndafræðin var sú að kosta sem minnstu til við reksturinn svo stilla mætti verðlagi í hóf. Vörunum var komið fyrir á brettum á búðargólfinu, þær voru ekki einu sinni teknar upp úr kössunum. Fyrst í stað var úrvalið takmarkað, ekkert kjöt, engin mjólk, enginn fiskur. Enda ekki nema fyrir útvalda að fá að versla með slíkar vörur. Þær voru seldar í sérstökum verslunum; kjötbúðinni, fiskbúðinni, mjólkurbúðinni.

En í áranna rás fengust leyfi til þess að bæta þessum vörum við í Fjarðarkaupum eins og öðrum matvöruverslunum og smám saman stækkaði verslunin og sprengdi utan af sér hvert rýmið af öðru. Einhvern tímann sagði einhver einhvers staða að verslunin hafi verið stækkuð alls 11 sinnum – en það verður ekki selt dýrara en það var keypt. Þó alls ekki undir kostnaðarverði.

Íslenskt samfélag á þessum tíma

Hvað var um að vera í íslensku samfélagi um þær mundir sem Fjarðarkaupum var hleypt af stokkunum árið 1973?

Ýmsar stórfréttir bárust landsmönnum, meðal annarra þessar:

  • Þá gaus í Vestmannaeyjum.
  • Landhelgisgæslan klippti trollin í gríð og erg aftan úr breskum togurum og skaut á þá úr fallbyssu í „blóðugu“ þorskastríðinu. Bresk herskip sigldu á íslensk varðskip.
  • Bankastjórn Seðlabankans hækkaði stofngengi íslenskrar krónu um 6% til að draga úr verðbólgu. Þetta var í fyrsta skipti sem þetta var gert síðan 1924.
  • Margrét Danadrottning kom í heimsókn.
  • Nixon og Pompidou hittust á Íslandi til skrafs og ráðagerða.
  • Menntamálaráðuneytið auglýsti að Z væri afnumin.

Ávarp feðganna

„Frá því við stofnuðum Fjarðarkaup höfum við kappkostað að veita góða þjónustu og bjóða upp á gott vöruúrval og gæði. Við höfum verið með frábæran starfsfólk og viljum að fyrirtækið sé góður vinnustaður. Það vonum við að hafi tekist. Afraksturinn teljum við að birtist í ánægðum viðskiptavinum sem velja að gera Fjarðarkaup að ,,búðinni sinni”. Undanfarin fimmtíu ár höfum við reynt að missa ekki sjónar á þeim grundvallargildum sem Fjarðarkaup byggðu á í upphafi og það hefur fallið ágætlega í kramið.

Við erum þakklát öllu því góða fólki sem hefur lagt leið sína hingað til okkar, sumt hvert frá upphafi en margir árum og áratugum saman. Framundan eru spennandi tímar og Fjarðarkaup munu áfram leggja sitt af mörkum til þess að tryggja virka samkeppni og framúrskarandi vöruúrval á íslenskum matvörumarkaði – neytendum í hag.

Virðingarfyllst,
Sigurbergur Sveinsson, Sveinn Sigurbergsson og Gísli Sigurbergsson“

Þróun en alltaf verði lögð áhersla á góða þjónustu og mikið vöruúrval

Verslunin hefur þróast umtalsvert á þessum fimmtíu árum en áhersla hefur alla tíð verið lögð á góða þjónustu og mikið vöruúrval.

Mynd úr Fræinu þegar það var opnað í Fjarðarkaupum 2003.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á versluninni og nýjungar litið dagsins ljós; má þar nefna til dæmis heilsuvöruhornið Fræið, hannyrðadeildina Rokku, nýtt tölvukerfi og sjálfsafgreiðsla. Staðfesta og hófsemi hafa allt frá upphafi verið megineinkenni á starfseminni sem hefur byggt á kjörorðunum að sníða sér ávallt stakk eftir vexti. Sigurbergur Sveinsson er enn þann dag í dag aðaleigandi verslunarinnar og með honum starfa við reksturinn synir þeirra Ingibjargar heitinnar: Sveinn og Gísli. Þeir eiga síðan börn sem einnig hafa staðið vaktina um lengri eða skemmri tíma.

Það var líka boðið upp á köku á 30 ára afmælinu.

1973–1983

  • Stofnun Fjarðarkaupa við Trönuhraun (1973)
  • Kjöt, mjólk og fiskur bætast við vöruframboð (1976)
  • Stækkað við Trönuhraun alls fimm sinnum á níu árum
  • Fyrsta skóflustungan tekin við Hólshraun (1981)
  • Starfsfólki fjölgar úr 20 í 40
  • Átta metra langt kjötborð
  • Lægsta vöruverði á landinu á þessum tíma er náð með því að sníða sér stakk eftir vexti, byggja ekki steinsteypuminnisvarða heldur hafa allt einfalt og látlaust auk þess að njóta góðra starfskrafta.

1983–1993

  • 10 ára starfsafmæli (1983)
  • Húsnæðið við Hólshraun tvöfaldað að stærð, flöturinn um 3.600 m2 (1988)
  • Kortaskannar teknir upp, um 65% viðskiptavina greiddu á þessum tíma með greiðslukorti miðað við 85% í dag (1991)
  • Starfsmannafjöldi kominn upp í 94, í 55–60 stöðugildum (1991)

1993–2003

  • 20 ára starfsafmæli (1993)
  • Bjarni og Valgerður láta staðar numið í rekstrinum (1993)
  • Snillingar í rusli, Fjarðarkaup hófu flokkun á rusli (1994)
  • Laugardagsopnun tekin upp og reykingar bannaðar í kaffihorninu (1995)
  • Olís opnar sjálfvirku bensínstöðina sína við Fjarðarkaup (1996)
  • Apótekið opnar í Fjarðarkaupum (1997)
  • 25 starfsafmæli og Sparisjóður Hafnarfjarðar opnar afgreiðslu (1998)
  • Fjarðarkaup opna mjólkurtorg (1997)
  • Sigurbergur valinn Gaflari ársins (1999)
  • Listaverkið Jötnar afhjúpað við Fjarðarkaup (2000)

2003–2013

  • 30 ára starfsafmæli (2003)
  • Fræið heilusvörudeild opnuð (2003)
  • Fjarðarkaupafeðgar valdir Viðskiptamenn ársins (2009)
  • Fjarðarkaup tóku í fyrsta og eina skiptið þátt í Íslensku ánægjuvoginni og fengu hæstu einkunn sem mæld hefur verið (2010)
  • Rokka hannyrðadeild opnuð (2011)

2013–2023

  • 40 ára starfsafmæli (2013)
  • Fjarðarkaup mælast á topp 10 listanum í meðmælamælingum frá 2014 til dagsins í dag og hafa fimm sinnum verið í fyrsta sæti
  • Kaffihúsið Kaffi Vin opnar (2018)
  • Covid-19 skall á (2020)
  • Sótthreinsistöð sett upp fyrir innkaupakerrur við mikinn fögnuð viðskiptavina
  • Miklar áskoranir og fjöldatakmarkanir en allt gekk vel, þrátt fyrir 100 manna takmörkun í versluninni sjálfri
  • Nýtt bakarí opnar í samstarfi við Passion Reykjavík (2020)
  • Fjarðarkaup tóku upp rafræna hillumiða og nýtt tölvukerfi (2021)
  • Fyrstu sex sjálfsafgreiðslu kassarnir teknir í notkun og afgreiðslukössum fjölgað úr 8 í 12 (2022)
  • 50 ára afmæli Fjarðarkaupa (2023)

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2