fbpx
Þriðjudagur, janúar 7, 2025
HeimFréttirAtvinnulífKristinn forseti ráðinn sviðsstjóri kennslusviðs HÍ

Kristinn forseti ráðinn sviðsstjóri kennslusviðs HÍ

Kristinn Andersen, prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild og forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, hefur verið ráðinn sviðsstjóri kennslusviðs Háskóla Íslands frá 15. október 2023. Hann tekur við af Róbert Haraldssyni sem hverfur nú til fyrri starfa sinna innan HÍ sem prófessor í heimspeki.

Kristinn lauk CS-gráðu í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1982, MS-prófi í sömu grein frá Vanderbilt-háskóla í Bandaríkjunum árið 1992 og doktorsprófi frá sama skóla ári síðar. Þá hefur hann einnig lokið viðbótardiplóma í kennslufræði fyrir háskóla.

Kristinn starfaði sem yfirverkfræðingur hjá Mid-South Engineering í Nashville í Bandaríkjunum á árunum 1985-1990 og að loknu doktorsnámi hélt hann heim til Íslands þar sem hann starfaði hjá Marel í yfir tvo áratugi, lengst af sem rannsóknastjóri. Jafnhliða störfum hjá Marel var hann aðjunkt og sinnti stundakennslu í rafmagns- og tölvuverkfræði við HÍ um árabil. Hann kom til starfa við Háskóla Íslands árið 2014 og hefur gegnt stöðu prófessors í rafmagns- og tölvuverkfræði frá þeim tíma.

Kristinn hefur auk þess gegnt ýmsum trúnaðar- og stjórnunarstörfum innan Háskóla Íslands. Hann hefur m.a. verið forseti Rafmagns- og tölvuverkfræðideildar, formaður hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala, formaður dómnefndar í Vísinda- og nýsköpunarverðlaunum Háskóla Íslands og í dómnefnd vegna framgangs starfsfólks á Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Utan Háskólans hefur hann m.a. verið formaður Verkfræðingafélags Íslands.

„Verkefni kennslusviðs ná til margra helstu lykilþátta í starfsemi Háskóla Íslands, sem snúa að nemendum ekki síður en starfsfólki skólans. Mikilvægt er að koma til móts við vaxandi fjölbreytni nemendahópsins og bregðast við breytingum og áskorunum um leið og við tryggjum áfram gæði kennslu og stefnum að því að standa þar í fremstu röð. Að undanförnu hefur farið fram mikil þróun í kennslumálum sem við búum núna að og mikilvægt verður að fylgja eftir og byggja á. Starfsfólk HÍ hefur sýnt færni og metnað í þessum efnum, sem ég hef sjálfur horft til og notið góðs af í eigin kennslu. Ég þakka fyrir tækifæri núna til að leggja kennslumálum lið á nýjum vettvangi og ég hlakka til verkefnanna og samstarfsins sem nú fer í hönd,“ segir Kristinn.

„Ég býð Kristin Andersen hjartanlega velkominn í starf sviðsstjóra Kennslusviðs. Kennslusvið er stærsta stjórnsýslusvið Háskóla Íslands og hefur gríðarlega mikið þróunarstarf í kennslumálum verið unnið innan þess undanfarin ár. Kristinn er afar vel til þess fallinn að taka við stjórn sviðsins en hann hefur mikla reynslu, bæði innan HÍ og utan. Hann er afar skipulagður og góður kennari og hefur ávallt sinnt nemendum vel. Ég óska Kristni Andersen góðs gengis í þessu nýja starfi og þakka Róbert Haraldssyni, fráfarandi sviðsstjóra Kennslusviðs, jafnframt fyrir einstakt starf,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands á heimasíðu Háskóla Íslands..

Kennslusvið er eitt af átta stoðsviðum Háskóla Íslands. Sviðið fer með sameiginleg málefni sem varða kennslu og nám, svo sem inntöku og skráningu stúdenta, mat á námi, nemendaráðgjöf, kennslumál, kennsluþróun og próf. Á kennslusviði starfar fjöldi reynslumikilla sérfræðinga sem sinnir fjölþættum stuðningi við nemendur og starfsfólk. Miklar breytingar hafa orðið í kennslumálum HÍ undanfarin misseri í anda heildarstefnu skólans þar sem stafræn umbylting hefur orðið í þjónustu við nemendur og kennara innan skólans. Nýjar upplýsingatæknilausnir hafa verið innleiddar með gæði náms í fyrirrúmi en markmiðið í kennslumálum er einmitt að efla áfram allt nám með gæði að leiðarljósi, ekki síst fjarnám. Kristinn Andersen mun styrkja áframhaldandi sókn Háskólans á þessum sviðum.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

Gleðilegt nýtt ár

Yfirkeyrsla

Beina brautin

H2