Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í bæjarstjórn samþykktu í gær tillögu fræðsluráðs um hækkun á gjaldskrá skólamatar í Hafnarfirði frá 1. nóvember nk. sem eru tilkomnar vegna gjaldskrárhækkunar hjá Skólamat ehf.
Hækkar hádegismatur til nemenda grunnskóla í fastri áskrift úr 533 kr. í 709 kr. eða um 33% og 10 miða kort hækkar úr 9.013 kr. í 11.987 kr. sem einnig er hækkun um 33%.
Verð á ávöxtum og grænmeti á dag í mánaðaráskrift hækkar úr 123 kr. í 157 kr. eða um 27,2%.
Gjald fyrir síðdegishressingu í frístundaheimilum hækkar um 19%.
Gjaldskrá á mánuði fyrir morgunhressingu, hádegismat og síðdegishressingu í leikskólum bæjarins hækkar um 19%.
Er hlutfall foreldra í matargjaldinu óbreytt en heildarverðið hækkar.
Fulltrúar Samfylkingar greiddu atkvæði gegn tillögunni en fulltrúi Viðreisnar sat hjá.
Í hrópandi mótsögn við málefnasamning meirihlutans
Í bókun bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar segir að það sé í hrópandi mótsögn við málefnasamning meirihlutans. Í honum segi að gjöld á barnafólk í skólakerfinu verði áfram lækkuð, m.a. fyrir skólamáltíðir og þannig stigin markviss skref í átt að því að gera þær gjaldfrjálsar. Með ákvörðun sinni í dag um hækkun gjaldskrár notenda í leik- og grunnskólum vegna skólamáltíða gangi meirihlutinn freklega á bak orða sinna og komi í engu til móts við foreldra og forráðamenn þegar efnahagsaðstæður eru mjög íþyngjandi fyrir fjölskyldur í bænum, ekki síst þær fjölskyldur sem við búa við bágustu kjörin. Vísa þeir jafnframt í bókuninni ábyrgðinni alfarið á hendur meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.
„Kostnaðarhlutdeildin verði óbreytt“
Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks segir að lögð sé áhersla á að standa vörð um kostnaðarhlutdeild forráðamanna barna, en hún verði sú sama fyrir og eftir breytingar.